Farin að fá móðu fyrir augun

Spurning:
Ég er rúmlega 30 ára og vinn við tölvur. Frá 12 ára aldri hef ég notað gleraugu (fjarsýni) en sjónin hefur ekkert breyst. Er hins vegar farin að fá mikla móðu fyrir augun og þarf að blikka mikið, ber mest á þessu þegar ég horfi á tölvuskjáinn og truflar þetta vinnu mína. Getur verið að sjónin sé að breytast eða er þetta eitthvað annað?

Takk fyrir

Svar:
Sæl og blessuð.

Já, ég held að fjarsýnin sé aftur að banka upp hjá þér, því miður! Ekki það að þú sért í sjálfu sér eitthvað fjarsýnni en þegar þú varst 12 ára (eða yngri), en augasteinninn þinn er sennilega orðinn þreyttur á því að leika ,,plúsgleraugu". Þetta hljómar nú frekar fjarstæðukennt, ekki satt?! Staðreyndin er hins vegar sú, að þú hefur sennilega verið með of stutt augu frá upphafi, þ.e. fjarsýn. Það þýðir einfaldlega að í stað þess að augað þitt líti út eins og borðtenniskúla (eðlileg lögun á auga), þá lítur það út eins og keyrt hafi verið aftan á það og verður því of stutt! Nærsýn augu eru of löng, þ.e. eins og egg í laginu og er greinarhöfundur t.d. með augu í laginu eins og súluegg (enda notar hann -8.5 gleraugu). Til að brennipunktur geislanna sem koma inn í augun lendi á réttan stað á sjónhimnunni, þ.e. í fókus, þarf augasteinninn að bregða á það ráð að breyta sér í plúslinsu, þ.e. hann þykknar í miðjunni. Þetta gat hann gert lengi vel, en hann harðnar þó með aldrinum, og því verður æ erfiðara fyrir hann að breyta svona um lögun. Því þarftu á aukinni hjálp gleraugna að halda með aldrinum. Enn eitt gerist svo þegar við horfum á hluti nálægt okkur. Þá breytir augasteinn okkar allra um lögun til að koma hlutnum í fókus á sjónhimnunni, þ.e. hann þykknar í miðjunni. Þegar augasteinninn okkar harðnar með árunum þurfum við á plúsgleraugum að halda til að skoða hluti nálægt okkur. Þetta gerist yfirleitt um fertugsaldurinn. Þínir augasteinar gegna enn meiri ábyrgðarhlutverki þegar þú horfir nálægt þér. Ekki einungis þurfa þeir að breyta um lögun til að horfa á hluti langt í burtu, heldur þurfa þeir að þykkna enn meir um miðjuna þegar þú horfir á hluti nálægt þér! Þetta verður því æ erfiðara fyrir fjarsýna og því þurfa þeir oft á lesgleraugum að halda fyrr en aðrir. Þetta þýðir plús og meiri plús í gleraugunum – því miður. Aðrir valkostir eru snertilinsur með fullri leiðréttingu, nú eða laseraðgerð. Spjallaðu við augnlækninn þinn um þetta – ástæðulaust fyrir þig að þreytast svona við tölvuna!
 
Bestu kveðjur og gangi þér vel.
 
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir.