Spurning:
Sæll.Ég er á þunglyndislyfinu Zoloft og er að velta fyrir mér hverning standi á þvi að líðanin lagist ekki,er mjög til baka og finnst ég ekki taka fullan þátt í lífinu .Hef ekki áhuga á neinu, ekki kynlífi ekki samveru við annað fólk. Og svona vil ég ekki hafa það .Ég vil taka fullan þátt í mínu lífi en er ekki að geta rifið mig upp.Ég vil taka fram að ég hef ekki alltaf verið svona og fór á göngudeild í viðtal fyrir 2 mánuðum síðan og var ávísað á þessi lyf.Ég hélt að viðtals meðferð væri notuð fyrst?
Ég held að viðtalsmeðferð gæti hjálpað en veit ekki hverning ég ber mig að,kostar ekki helling að fara á einkastofu?
Með von um hjálp!
Svar:
Komdu sæl.
Þunglyndi er lamandi sjúkdómur, eins og þú lýsir réttilega. Lyfin ættu að bæta eitthvað úr skák en oft er nauðsynlegt að beita viðtalsmeðferð samhliða lyfjagjöf. Það er hins vegar ekki hlaupið að því að fá hana í heilbrigðiskerfinu. Þú getur þá leitað til sjálfstætt starfandi sálfræðinga en því miður fæst engin niðurgreiðsla á gjöldum þeirra. Taxti þeirra er líka örlítið mismunandi. Þú þarft bara að taka upp tólið, hringja og spyrjast fyrir. Sálfræðingar gefa hins vegar ekki út neina lyfseðla.
Í þínu tilviki mæli ég með að þú leitir þér meðferðar sem kallast hugræn atferlismeðferð. Í henni er unnið bæði með hegðun þína og hugsun. Sú leið hefur skilað einna bestum árangri í baráttunni við þunglyndi og dregur mjög úr líkum á að þú dettir aftur í sama farið síðar meir.
Með kveðju Reynir Harðarson sálfræðingur S: 562-8565