Fitnar maður við að hætta reykingum?

Spurning:
Mig langaði einfaldlega að spurja, fitnar maður þegar maður hætti að reykja ?
Svar:

Fólk þarf ekki endilega að fitna þegar það hættir að reykja. Samt er það svo að fyrst eftir að fólk hættir að reykja hægir ofurlítið á brennslu líkamans (u.þ.b. 10 %) , þannig að ef fólk passar sig ekki getur það þyngst.

Besta leiðin til að koma í veg fyrir það er að hreyfa sig aðeins meira og huga að hollu mataræði. Hreyfing er líka góð leið til að minnka streitu og það hjálpar vissurlega í baráttunni við nikótínfíknina. Varðandi mataræði þarf fólk að vera vakandi fyrir því að narta ekki í stað þess að reykja, þ.e. alls ekki gera mat að staðgengli tóbaks. Margir verða matlystugri þegar þeir hætta, aukið bragðskyn hefur þar áhrif ásamt þörfinni(vananum) að bera eitthvað upp að munninum.

Það má því segja að mörgum hætti til að þyngjast þegar þeir hætta að reykja en ef fólk heldur vöku sinni þarf það alls ekki að gerast.

Besta ráðið er að borða reglulega hollan mat, drekka vel af vatni, forðast sykur og fitu, ásamt því að stunda reglulega hreyfingu.

Heilsufarslegur ávinningur af því að hætta að reykja er miklum mun meiri en hættan af fáum aukakílóum.

Gangi þér vel og þér er velkomið að hafa samband við

Ráðgjöf í reykbindi í síma 800-6030.

 

 

Dagbjört Bjarnadóttir ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi