Fjögurra mánaða og vill ekki sofna

Spurning:

Sæl Dagný.

Dóttir okkar sem er 4 mánaða er ekkert sérstaklega glöð með að sofna sjálf og hafa kvöldin sérstaklega reynst okkur erfið. Hún er meira fyrir að láta svæfa sig í fangi og hálsakoti foreldranna. Þegar hún er lögð sofandi í vögguna, vaknar hún iðulega og upphefur þá raust sína og duga þá sjaldnast vögguvísur eða rassabank. Í nokkurn tíma höfum við þó lagt hana vakandi og ný nærða í vögguna og sýnilega svefnþurfi. Sú aðferð hefur kallað á langan svæfingartíma sem við hjónin höfum deilt með okkur með vaktafyrirkomulagi. Í þessu fyrirkomulagi er alger undantekning ef hún er tekin upp. Þó verðum við stundum úrvinda á að hlusta á barnið gráta og tökum hana upp og þá þagnar hún um leið og byrjar að brosa framan í okkur og hjala. Geta má í þessu sambandi að hún hefur aldrei tekið snuð. Einnig má þess geta að á daginn sefur hún sjaldan lengi í einu, að jafnaði klukkutíma í senn og tekur yfirleitt tvo slíka lúra yfir daginn. Eitt er þó jákvætt við svefnvenjur dóttur okkar. Þegar hún festir loks svefn á næturnar, sefur hún að jafnaði til hádegis, með einu til tveimur stuttum drekkuhléum.

Við hjónin vonum að þessi lýsing dugi til greiningar á vandamálinu, sem er það helst að hún sofnar illa á kvöldin og sefur stutt á daginn. Spurningin er því þessi, hvað er til ráða, svo svefnvenjur hennar megi komast í betra horf?

Bestu kveðjur og fyrirfram þökk fyrir svar.

Svar:

Komið þið sæl kæru foreldrar.

Það er erfitt að finna leið sem hentar bæði foreldrum og barni þegar óskir þessara aðila stangast á. Barnið skilur ekki af hverju foreldrarnir eru sífellt að leggja það eitt í rúmið þegar það langar bara að vera nálægt foreldrum sínum allan sólarhringinn. Börn eru nefnilega svo ákaflega háð nærveru foreldra sinna. Foreldrarnir á hinn bóginn vilja e.t.v. frið til að gera það sem fullorðnir gera – horfa á sjónvarp, lesa blöð, spjalla saman og við vini sína, fara í bað og elskast og skilja ekki af hverju barnið getur ekki aðlagast þeirra þörfum. Þetta er sem sagt samskiptavandamál.

Það er greinilegt að dóttir ykkar er ekki tilbúin að sofna sjálf. Og ég get vel skilið að þið eigið erfitt með að hlusta á hana gráta – enda er grátur ákall á hjálp. Ef hún er látin gráta er líka hætt við að hún missi traustið á ykkur foreldrana og verði óörugg og sofi verr fyrir vikið. Ef þið getið alls ekki hugsað ykkur að lofa henni bara að vera á ykkur og milli ykkar næstu mánuðina þá verðið þið að finna lausn sem barnið getur sætt sig við. Flest börn geta aðlagast reglu – allt er eins alla daga og því fyrirsjáanlegt. En það þýðir að þið verðið líka að hafa reglu á öllu sem þið gerið. Það fyrsta sem þið þurfið að koma reglu á er tíminn sem er vaknað á morgnana. Vitaskuld getur barnið ekki sofnað á kvöldin ef það sefur til hádegis. Það stangast algerlega á við dægursveifluna. Mun nær er að öll fjölskyldan fari snemma á fætur og þá kemst oftast góð regla á daglúra og kvöldsvefn. Svo er bara að finna upp svæfingaraðferð sem hægt er að standa við – án gráts. Ef stúlkan er södd og búin að vaka drjúga stund (börn geta auðveldlega vakað í 4-6 tíma í lotu) getið þið skipst á um að setja hana í rúmið, breiða ofan á hana sængina, láta hana fá bangsann sinn (teppið, náttkjólinn af mömmu eða peysuna af pabba, bara eitthvað fast í tilverunni), kysst hana góða nótt og yfirgefið herbergið. Svo farið þið bara inn í hvert skipti sem heyrist í henni og leggið hana niður aftur þar til hún sofnar. Stundum getur þó verið hraðvirkara að sitja hjá krílinu og lesa í hljóði þar til það sofnar. En þá þarf það líka að gerast á hverju kvöldi. Aðalatriðið er reglan – við erum öll þrælar vanans, ekki síst börnin.

Vonandi gagnast þessi ráð eitthvað en ef þið gefist alveg upp getið þið leitað til barnadeildar LHS í Fossvogi (Borgarspítala) þar sem er starfrækt teymi sem sérhæfir sig í svefnvandamálum.

Gangi ykkur vel.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir