Fjölgun hvítra blóðkorna

Spurning:

Gott kvöld.

Ég fór í blóðprufu þar sem ég hef grun um að vera að byrja á breytingarskeiði og vildi læknirinn kanna hormónamagn og skjaldkirtil, svo var hringt og sagt að í blóði hefði verið talsverð fjölgun hvítra blóðkorna og ég beðin að koma í aðra prufutöku síðan hef ég ekkert heyrt, þar sem ég veit að fjölgun hvítra blóðkorna er í hvítblæði hef ég verið með alskonarvangaveltur. Getur ekki einhver annar sjúkdómur legið bak við svona fjölgun??

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Fjölgun á hvítum blóðkornum getur t.d. verið tilkomin vegna tímabundinna sýkinga sem er langalgengasta orsökin. Þá fjölga ákveðnar tegundir hvítra blóðkorna sér svokallaðar varnarfrumur, í þeim tilgangi að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Ótal aðrar ástæður eru fyrir hvítkornafjölgun og verður alltaf að líta á fleiri rannsóknarniðurstöður til að fá rétta samhengið í hlutina. En þar sem þú hefur ekkert heyrt frá lækninum síðan, þykir mér afar ólíklegt að hann hafi grunað að um illkynja sjúkdóm á við hvítblæði hafi verið að ræða.

Kveðja,
Kristín hjúkrunarfræðingur,
Krabbameinsráðgjöfinni.