Spurning:
Sæll.
Ég er búinn að vera með fjörfisk í hægra auga í tæpt ár. Þetta hefur verið mismikið, stundum óþægilega mikið. Fjörfiskurinn lagast af og til, en hverfur aldrei. Hvað er til ráða?
Kveðja.
Svar:
Fjörfiskur í vöðvunum í kringum auga er algengt fyrirbrigði en getur orðið nokkuð óþægilegur. Lítið er vitað um uppruna hans í flestum tilvikum og vandamálið leysist oftast af sjálfu sér með tímanum. Þreyta getur þar haft viss áhrif sem og streita. Stundum getur hjálpað að leggja kaldan bakstur við ef þetta verður mjög óþægilegt.
Til eru sjúkdómar sem lýsa sér með kippum í vöðvum kringum augum, en þeir eru sem betur fer sjaldgæfir. Einna þekktastur þeirra er ósjálfráður vöðvaherpingur í kringum auga, en þá lokast augu ósjálfrátt og viðkomandi getur ekki opnað augað, eða augun (getur verið beggja vegna). Ólíklegt er þó að fjörfiskurinn þinn sé af þessum toga og mun hann líklega hverfa á næstu mánuðum.
Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.