Góðan dag.
Ég er búin að taka folinsýru í líklega 2 ár í því þeim tilgangi að auka frjósemina, en ekki orðið ólétt enn.
Nú hef ég hugsað mér að taka ca. 3ja til 4ra mánaða óléttupásu – og reyna svo aftur að verða ólétt að þeim tíma liðnum.
Geri ég rétt með því að halda áfram að taka folinsýruna meðan ég er í pásunni? Eða, er rétt að hætta að taka folinsýruna þessa mánuði sem ég er í óléttupásu – og byrja svo aftur á folinsýrunni með því markmiði að hjálpa mér að verða ólétt?
Fyrirfram takk.
P.S. Hætti ég folinsýrunni verða þá einhver eftirköst af henni?
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það væri best að þú myndir halda áfram að taka fólínsýruna þó svo að þú takir þér pásu frá því að reyna að verða ólétt. Fólínsýra er vatnsleysanlegt B-vítamín sem dregur úr líkum á fæðingargöllum í taugakerfinu og skiptir miklu máli á fósturskeiði vegna þess hve hröð frumuskiptingin er. Mælt er með fyrir allar konur sem eru óléttar eða eru farnar að huga að barneignum að taka fólínsýru.
Þar sem að þú ert búin að reyna að verða ólétt í 2 ár myndi ég ráðleggja þér að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni í skoðun, ræða þetta við hann og athuga hvort að allt sé eins og það á að vera. Fólínsýra eykur nefnilega ekki frjósemi heldur er hún góð fyrir fóstrið þegar getnaður hefur átt sér stað. Kvensjúkdómalæknirinn getur svo bent þér áfram á réttan stað ef þess þarf.
Gangi þér vel,
Særún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur