Fótapirringur á meðgöngu?

Spurning:
Ég er ólétt, komin 23 vikur á leið og hef undanfarnar nætur ekki getað sofnað vegna mikils pirrings í fótunum. Mér finnst eins og ég geti ekki slakað á vöðvunum í fótunum og þurfi sífellt að hreyfa þá og get þ.a.l ekki verið kyrr. Þetta byrjar þegar ég er að reyna að sofna og heldur vöku fyrir mér langt fram á nótt. Hvað getur þetta verið og er eitthvað sem ég get gert til að losna við þennan pirring?
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Fótapirringur hrjáir margar konur á meðgöngu. Ekki hefur fundist nein afgerandi skýring á orsökum fótapirrings en kenningar eru um að hann geti orsakast af járnskorti, magnesíumskorti, hormónaáhrifum eða auknum æðaþrýstingi. Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að draga úr fótapirringi en gefist misvel. Sé um járnskort að ræða er vitaskuld fyrsta atriðið að leiðrétta hann með töku járns og eins ef um magnesíumskort er að ræða að taka þá inn magnesíum. Kaffi og koffíndrykkir virðast geta aukið fótapirring, sem og áfengi og ýmis ofnæmis- og ógleðistillandi lyf, svo rétt er að sleppa öllu slíku. Af húsráðum hefur heyrst talað um að bananar, apríkósur, harðfiskur, spergilkál, grænkál og sellerý geti lagað fótapirring, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Til viðbótar hefur mörgum gefist vel að fara í sund, stunda létta líkamsrækt, nota kalda bakstra, gera teygjuæfingar fyrir svefninn og hækka undir fótum í rúminu.

Vonandi dugar eitthvað af þessu til að láta þér líða betur en þú skalt endilega spjalla um þetta við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni – hún kann e.t.v. enn fleiri ráð.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir