Framhjáhald á netinu eða?

Spurning:
Sæl! Ég er í smá klemmu, ég er í sambúð og hún gengur vel þótt við stundum kynlíf svona í lágmarki. Fyrir nokkrum kvöldum, þegar kærastinn minn var ekki heima, fór ég á netið. Ég fór á spjallrás erlendis, í landi sem ég bjó í fyrir nokkrum árum. Allt í einu var ég komin á eintal við mann sem mér fannst skemmtilegur og eitt leiddi af öðru. Hann sagði mér að hann væri giftur og ég sagðist vera í sambúð svo það var á hreinu en svo enduðum við á því að “gera það” á netinu, með öllu tilheyrandi. Þótt það hljómi hallærislega þá held ég að við höfum upplifað það bæði tvö. Ég verð ekki einu sinni svona æst þegar ég er með kærastanum mínum. Þessi maður á spjallrásinni hefur sent mér póst og segist hlakka til að heyra í mér aftur. Ég átta mig á því að ég er nú ekki að fara að giftast þessum náunga sem getur verið hver sem er en ég er með bullandi samviskubit gagnvart kærastanum mínum. Það er eins og ég hafi verið að byrja með nýjum manni og ég veit ekki hvort ég get horft framan í kærastann minn. Hvað er að gerast, er ég svona desperat eða hvað?   Netsjúk

Svar:
Kæra “netsjúk”, ég get ekki svarað því hvort þú sért svona desperat eða ekki. Ég held að besti útgangspunkturinn í að skoða hvað sé í gangi sé líðan þín. Hvaða merkingu leggur þú og kærastinn þinn í trúnað ykkar sambands? Hafið þið rætt það? Trúnaður er ekki eingöngu líkamlegur heldur líka tilfinningalegs eðlis. Þess vegna er um framhjáhald að ræða, þó svo þið hafið aldrei þreifað á hvort öðru nema með orðum, gagnkvæmri athygli og huga með aðstoð netsins. Ef þú segðir við kærastann þinn að þú hafir verið á þessari spjallrás, gefið þig að ókunnugum manni og endað á því að “fá það” með honum eru allar líkur á því að honum verði brugðið og finnst trúnaður ykkar á milli hafi beðið einhvern hnekki. Eða það þætti mér ekki ólíklegt. Þú segir að sambúðin gangi vel. Hvers vegna viltu þá koma þeirri góðu sambúð í uppnám? Ég tel hæpið að þið treystið ykkar samband ef þú heldur uppteknum hætti. Annað mál væri að ef þú og kærastinn þinn væruð að leika ykkur saman á netinu, hann væri t.d. að þykjast vera ókunnugur maður að hitta ókunnuga dömu (þig). Þá væruð þið að kanna víddir spennunnar – en saman- og um leið að viðhalda gagnkvæmum trúnaði. Ég held ég hafi gefið þér nóg til að hugsa um.

 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi