Frjósemi

Fyrirspurn:

Góðan daginn.
Ég er 25 ára gömul kona og við hjónin erum í þeim hugleiðingum að fara að eignast annað barn. Við eigum 1 barn saman, en hann á annað fyrir.
Mín spurning er þessi: Þar sem síðasta barn kom undir öllum að óvörum, að þá er þetta í fyrsta skipti sem að við erum að plana að eignast barn. Ég var á Depo sprautunni í 4 ár, en hætti á henni í október sl. (sem sagt síðasta sprautan var gefin í júlí 07). Ég veit og hef heyrt að það geti tekið allt upp í ár að verða frjó aftur eftir þessa sprautu.
Nú er staðan sú að ég byrjaði loksins á blæðingum aftur í  byrjun janúar sl. eftir að hafa verið í algjöru blæðingastoppi þessi 4 ár á depo. Þær urðu mjög óreglulegar fyrst, og stutt á milli, en núna virðist vera komin farvegur á tíðahringinn aftur – allavega var hann eðlilegur núna síðast, bara sínir 28 dagar.
Við höfum ekkert verið að nota neina getnaðarvörn síðan ég hætti á þessari síðustu.
Er of snemmt fyrir mig að fara að gera ráð fyrir að núna gæti loksins eitthvað farið að gerast – það er að segja eru litlar líkur á að ég sé orðin frjó aftur ??
Nú erum við svo heppin við hjónin að við erum voðalega ánægð með hvort annað, og eigum mjög gott samlíf, oft upp í 5-6 x í viku,þannig að það að hitta á réttan dag í tíðahringnum ætti ekki að vera mikið mál 🙂 En okkur langaði mikið til að fá að vita, hvort að núna þegar allt virðist vera komið í eðlilegan gang hjá mér aftur, hvort það væri of snemmt að fara að gera okkur vonir um að eitthvað gæti farið að koma undir….

Ég og við erum bæði heilbrigð og höfum ekki átt við nein heilsufarsleg vandamál að stríða. Við stundum bæði líkamsrækt 4-5 x í viku, tökum okkar lýsi og allt þess háttar 😉

Ef líkurnar á því að ég sé aftur orðin nógu frjó eru litlar, er þá eitthvað sem ég/við gætum gert til að reyna að flýta fyrir því ??
Einnig langar mig að vita hvort að þessi egglos próf sem að ég hef séð í apótekunum séu eitthvað sem væri þess vert að skoða. Eru þau nákvæm í sinni mælingu á þessu hormóni sem þau eiga að skynja þegar maður er með egglos?

Með kærri fyrirfram þökk fyrir svarið og mjög góða og hjálplega síðu 🙂

Aldur:
25 ára

Kyn:
Kvenmaður 

Svar:

Sæl,

Það getur tekið þó nokkurn tíma að koma egglosi og hormónum á rétt ról eftir sprautuna eins og þú sérð af því að það tók tíma að blæðingar hæfust aftur, óreglulega fyrst og núna loks að byrja að verða reglulega.  Ég mundi samt ekki reikna með því að allt sé komið á rétt ról ennþá, eftir pilluna er oft sagt að búast við amk 6 mánuðum og þá eru blæðingar samt oft mjög fljótlega nokkuð reglulegar þó það sé misjafnt.
Ég myndi því ekki fara að gera mér vonir alveg strax að eitthvað færi að gerast, þetta getur tekið lengri tíma og erfitt að vera farin að bíða.  Hvet þið frekar til að passa áfram upp á heilsuna, takir fólínsýru 400 microg. (gæti verið inn í vítamíni ef þú tekur fjölvítamín) og undirbúir líkamannn þannig undir meðgöngu. 
Varðandi egglosprófin þá getur þú alveg treyst á þau en það er sama þar, að ég myndi bíða með það, sérstaklega í ljósi þess að þið ættuð ekki að þurfa að hafa áhyggjur, njótið þessa bara að vera saman og reynið að forðast það að það verði að einhverri kvöð út frá egglosprófi.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,
Kristín Svala Jónsdóttir,
Hjfr. og ljósmóðir