Frjósemi karla og kvenna

Fyrirspurn:

Ég er búin að vera með ýmsar vangaveltur um frjósemi karla og kvenna og er með nokkrar spurningar varðandi það.

Hvernig get ég vitað hvort ég sé ófrjó eða ekki? Ég komst að því að ég var með klamidíu fyrir 10 mánuðum og veit ekkert hvað ég var búin að vera með hana lengi.. missti fóstur rúmum mánuði áður og veit ekki hvort ég hafi verið með hana þá eða ekki. Er pínu hrædd um að þetta hafi haft einhver áhrif á frjósemina.

Svo var ég að velta fyrir mér varðandi stráka. Eiga strákar með lítil typpi erfiðara með að búa til börn en þeir sem eru með stærri? Ef það kemur alltaf lítið brund hjá stráknum (minni en eðlilegt að mínu mati) er þá e-ð að?

Er egglos ekki alltaf ca. 2 vikum eftir fyrsta dag blæðingar? Getur það verið mikið fyrr eða mikið seinna? T.d. rétt áður en maður byrjar á blæðingum eða strax eftir blæðingar?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

 

 

1.       Með því að fara í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og láta athuga hvort eggjaleiðarar séu opnir, hormón mæld í blóðprufum og eggin skoðuð. Ófrjósemi af völdum klamydiu stafa oftast af því að samgróningar verða í eggjaleiðurunum og eggin komast ekki rétta leið. Hafir þú fengið meðhöndlun fljótlega eftir sýkingu (helst innan árs) ætti sýkingin ekki að hafa alvarlegar afleiðingar.

2.       Stærð typpisins skiptir engu máli varðandi frjósemi né heldur magnið beinlínis en innihald brundsins skiptir öllu. Þar eru sáðfrumurnar og það hversu margar og sprækar þær eru skiptir auðvitað máli. Þetta er hægt að skoða í smásjá.

3.       Konur með reglulegan 28 daga tíðahring hafa egglos á ca 14.degi. Hægt er að kaupa sérstakt egglospróf. Ekki verður alltaf egglos í öllum tíðahringjum án þess að eitthvað sérstakt sé að.

 

Að auki bendi ég á að þar sem þú hefur orðið þunguð áður þá eru allar líkur á að þú getir orðið það aftur sértu með sama maka.

Það er heilmikið efni þessu tengt á doktor.is ef þú notar leitarorðin:  Tíðahringurinn, egglos og ófrjósemi

 

Með bestu kveðju

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur