Fullnæging á meðgöngu?

Spurning:
Komið þið sæl og þakkir fyrir góðan vef.
Ég hef verið að leita að svörum við spurningu minni (í von um að sleppa við að spyrja) á meðgöngusíðunni, en ekki fundið enn. Það sem mig langar að vita varðar fullnægingu á meðgöngu. Frá því á sjöundu viku (er komin 12, fyrsta meðganga) hafa fylgt fullnægingu hræðilegir verkir, oft svo sárir að fullnæging er engan vegin þess virði. Það er samt erfitt að sætta sig við að upplifun sem venjulega er góð sé nú slæm og því höfum við, verðandi foreldrar, prófað okkur aðeins áfram, varlega, sirka 1 – 2 sinnum í viku og það er alltaf vont, mis-skarpt þó. Oft er ég í keng í marga tíma á eftir. Af hverju í ósköpunum er þetta svona? Ég hef aldrei heyrt um neitt þessu líkt. Ég veit að ég er með einhverja samgróninga í kjölfar tveggja legslímflakksaðgerða, og hef á köflum haft ansi sára verki þeim tengda, það sem af er meðgöngunni. Þeir eru þó aðeins vinstra megin, fullnægingarverkirnir (öfugsnúið orð!) eru báðum megin. Ég er bara alls ekki sátt við þetta. Allar bækur og netsíður, ásamt með ljósmóður sem ég hef rætt við (þó ekki akkúrat um þetta) halda því fram að kynlíf sé í fínu lagi á meðgöngu. Það er kannski vissara að taka það fram að ég þarf engar rosalegar tilfæringar til að fá fullnægingu, fyrst og fremst bara örvun á sníp. Mér þætti afskaplega vænt um að fá einhver svör við þessu!

Svar:

Það er rétt að undir flestum kringumstæðum er ekkert athugavert við að stunda kynlíf á meðgöngu. Helstu frábendingar eru hótandi fyrirburafæðing eða sýking. Vegna m.a. hormónaáhrifa eru flestar konur kynferðislega virkari á meðgöngu en ella og hafa oft meiri ánægju af kynlífi en fyrir getnað. En einstaka kona upplifir þó kynlíf á neikvæðan hátt – annað hvort vegna andlegra þátta eða vegna líkamlegra þátta sem upp koma á meðgöngu. Svona slæmir verkir, eins og þú lýsir, eru þó sjaldgæfir og benda að líkindum til að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Þar getur verið um að ræða blöðrur á eggjastokkum, samgróninga, aftursveigt leg, þvagfærasýkingu eða sýkingu í leggöngum og eins getur þetta verið vegna einhvers tengdu meðgöngunni eins og óeðlilegum samdráttum í legi eða fylgjustaðsetningu. Þó finnst mér e.t.v. líklegast að um svokallað ,,pelvic congestion" sé að ræða en það eru einskonar æðahnútar í kviðarholi sem gera það að verkum að blóðið á erfiðara með að streyma um æðarnar upp úr kviðarholinu en niður í það. Við fullnægingu streymir mikið blóð til grindarbotns, legs og grindarholsins en séu æðalokurnar lélegar eða mikil mýking á æðunum á það erfiðara með að streyma til baka og því geta fylgt verkir eins og fólk sem er með æðahnúta á fótum upplifir oft eftir langar stöður. Þegar við bætist æðamýking og stækkandi umfang legs getur þetta orðið enn verra. Sé um ,,pelvic congestion" að ræða er fátt hægt að gera en sumum hefur reynst vel að liggja á fjórum fótum með axlirnar niðri á dýnu og rassinn upp í loft. Það hjálpar blóðinu að streyma til baka.

En hvort sem þessi greining er rétt hjá mér eða ekki ættir þú að láta lækni skoða þig því eins og ég sagði áður þá geta þessir verkir átt sér aðrar og jafnvel alvarlegri skýringar sem þarfnast virkari meðhöndlunar.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir