Spurning:
Komdu sæl, ég hef eina smá fyrirspurn varðandi ljósmæður.
Þannig er að ég er komin 28 vikur á leið og hef verið hjá ágætis konu í mæðraskoðun. Í eitt skipti var hún veik og þá fékk ég aðra upplifun á því hvernig skoðunin „gæti verið“. Svörin voru mun öruggari og hnitmiðaðri og þau veittu mér meiri vissu í þeim atriðum sem ég spyr að. Hjá „minni“ ljósmóður er ég einhvernvegin alltaf í sömu óvissunni þegar skoðun lýkur. Ég fæ stundum á tilfinninguna að hún viti ekki nóg, (það getur vel verið að mín sé í raun miklu fróðari, þetta er bara svona sálfræðilegt atriði!). Er ekki hálf hallærislegt að fara að skipta um ljósmóður núna, auk þess sem mér fyndist örugglega pínlegt að hitta hana (sem ég er með í dag) aftur á göngunum?
Bestu kveðjur,
ein áttavillt!
Svar:
Komdu sæl.
Mikið eru konur nú alltaf duglegar að hugsa um tilfinningar annarra. Af hverju skyldir þú ekki mega velja þér ljósmóður (ef einhverjar eru til skiptanna) alveg eins og þú velur þér hárgreiðslukonu og kjörbúð til að versla í. Ef þú telur að þér liði betur hjá annarri ljósmóður er ekkert að því að skipta – og jú það tekur því alveg og er ekkert hallærislegt. Ef þér finnst „pínlegt“ að hitta hina ljósmóðurina á göngunum þá geturðu athugað hvort hún er kannski ekki í vinnu einhverja daga og komið þá. Annars tekur ljósmóðirin þetta sjálfsagt ekkert nærri sér – fólk er jú svo mismunandi og misjafnt hverjir ná saman og hverjir ekki. Ef þú ákveður að skipta biddu þá bara ritara stöðvarinnar að færa þig til þeirrar ljósmóður sem þú vilt að annist þig á þessum mikilvæga og viðkvæma tíma.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir