Fyrrverandi var sjúklegur lygari

Spurning:
Mig langaði til að vita hvernig ég á að umgangast föður barna minna sem ég er rétt í þessu að skilja við, hann er nefnilega það sem kallast sjúklegur lygari. Þetta er annað hjónaband sem hann fer í og ég hef alltaf átt ágæt samskipti við hans fyrverandi, svo fór ég að skoða allar þessar sögur sem eru alltaf um hann og fólk líka búið að vara mig við honum í gegnum árin (11 ár). Þá komst ég að því að hann er búin að tala illa um mig og þá ljótt öll árin sem við erum búin að vera saman og halda framhjá mér með öllu sem hreyfist. Hans pikkupp-lína er svona: að við erum að skilja og ég sé kynköld og vilji bara stelpur. Ég er að komast að þessu öllu í einu núna og mér finnst þetta stór pakki að taka, svo ég er búin að stoppa fólk í að dæla meiru í mig. En þetta er bara partur af minni sögu, hvað á ég að gera? Ég vil að allt sé í lagi, hann er nú einu sinni faðir barna minna.
Takk fyrir, ein sem öskrar á hjálp.

Svar:

Sæl.

Gott hjónaband verður að vera byggt á trausti og virðingu. Þessar forsendur hafa greinilega verið brotnar og það er örugglega erfitt fyrir þig að vinna úr. Þú getur aftur á móti hugsað þetta mál út í það óendanlega án þess að finna skýringar eða svör. En þú verður að spyrja þig hvort það skipti einhverju máli í dag. Ert þú betur sett fyrir framtíðina ef þú veist af hverju hann gerði þetta? Það gæti verið að ef þú finnur skýringu á gjörðum fyrrverandi mannsins þíns þá getur þú lært af reynslunni og notað þá reynslu fyrir tilvonandi sambönd. Það er bara ólíklegt að þú finnir skýringar. Einnig skaltu passa þig á að alhæfa ekki t.d. segirðu ,,…búinn að tala illa um mig og þá ljótt öll árin“ og ,,…halda framhjá mér með öllu sem hreyfist“ og ekki magna upp það sem hann gerði. Það er gott hjá þér að stoppa fólk af sem er með sögur um hann. Þessar sögur gera þig bara enn sárari og gagnast þér lítið. Þar að auki er alltaf sú hætta að börnin ykkar heyri til þegar verið er að ræða þessi mál. Ég er ekki að fegra manninn þinn fyrrverandi en það gagnast þér lítið að gera hann að skotmarki. Reyndu að hugsa um framtíðina og hugsa hvað þú sért heppin í stað þess hve þú varst óheppin að vera með honum.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur
Laugavegi 43
s:661-9068