Gallblaðra

Fyrirspurn:

Góðan dag. Ég er án gallblöðu, var tekin fyrir rúmum 2 árum. Getur maður fengið verki á svipaðan stað og blaðran var á? T.d. var ég í fermingarveislum um helgina og þá borðaði maður rjómatertur og sætindi, einnig mat og sósur. En þegar ég var sofnuð á sunnudagskvöldi vakna ég við verk, eins og brunaverk eða eins og eitthvað sé stíflað eða að verið sé að slíta eitthvað, virkar staðbundið, aðeins hægramegin við miðju neðan við rifbeinin. Þetta hefur gerst 1-2 sinnum áður og þá nýlega. En oft síðan blaðran var tekin hef ég fengið smá stingi þarna á þessu svæði. Er þetta eitthvað að óttast? Pínu óþægilegt sl. nótt af því maður er ekki vanur að vakna upp við verki. En þetta leið fljótt hjá og var bara einu sinni sem kom svona sár verkur, samt ekki sárt, eins og sviði eða bruni.

Takk fyrir.

Svar:

 

Verkir eftir gallblöðrutöku geta stafað af ýmsum ástæðum.

 

Þegar gallblaðran hefur verið tekin þá streymir gallið frjálst í meltingarveginn, hvort sem verið er að borða eða ekki og þá er til í dæminu að viðkomandi fái magabólgu vegna gallsins. Lýsingin þín getur passað við þetta.

 

Eins geta komið samgróningar á staðnum þar sem gallblaðran var og valdið verkjum, þetta á sérstaklega við ef gallblaðran hefur verið sýkt.Ég set hér  tengil á smá umfjöllun á doktor.is en hvet þig til að láta skoða þig ef þessir verkir halda áfram.

 

Með bestu kveðju

 

Guðrún Gyða Hauksdóttir

Hjúkrunarfræðingur