Gæti ég fengið fæðingarsturlun aftur?

Spurning:

Fimm vikum eftir að ég fæddi fyrsta barnið mitt árið 1993 var ég lögð inn á lokaða geðdeild gegn vilja mínum með fæðingarsturlun og var þar í átta mánuði. Ástæðan fyrir þessari löngu sjúkrahúsdvöl minni var sú, að þeim tókst ekki að vinna bug á sturluninni með hjálp sefandi geðlyfja.
Að lokum var ég talin vera í lífshættu vegna óráðs og var ég gegn vilja mínum þá sett í raflækningu. Meðferðin bar skjótan árangur, og var henni beitt í samtals tíu skipti. Nú á ég von á öðru barni og því vakna ýmsar spurningar.
Það sem mig langar að spyrja um, er hvort ég geti nú þegar undirritað skjal þar sem ég gef læknunum leyfi til að setja mig í raflækningu strax í upphafi ef veikin gerir vart við sig á ný. Hefur slíkt skjal eitthvað gildi? Hver ætti að semja það fyrir mig? Get ég verið viss um að óskum mínum um að fá raflækningu verði fylgt, þrátt fyrir að ég myndi mótmæla meðferðinni þegar hennar yrði þörf?

Svar:

Fæðingarsturlun er geðsjúkdómur, sem getur komið fram við fæðinguna og á fyrstu þremur mánuðunum eftir fæðinguna. Sjúkdómseinkennin geta verið mjög mismunandi. Gjarnan kemur fram þunglyndi eða oflæti, ásamt ranghugmyndum og/eða ofskynjunum og/eða truflunum á einbeitingu. Fyrirboði sturlunarástandsins er gjarnan svefnleysi, eirðarleysi, skapsveiflur og vægur einbeitingarskortur. Meðferðin miðast við þau einkenni sem mest eru áberandi. Þunglyndislyf eru notuð við þunglyndi, sefandi lyf (neuroleptika) og/eða lítíum við oflæti, og sefandi lyf við ofskynjunum og ranghugmyndum. Að auki getur í alvarlegri tilvikum komið til tals að beita raflækningu.

Í þínu tilviki ráðlegg ég þér að hafa samband við geðdeild sjúkrahússins sem þú yrðir lögð inn á, ef veikindin skyldu endurtaka sig. Þar geturðu bæði fengið leiðbeiningar um hugsanlegar forvarnir gegn fæðingarsturlun og skýrt frá afstöðu þinni til meðferðar.

Ógerlegt er að ákveða fyrirfram hvaða meðferð myndi henta, þar sem hún hlýtur að taka mið af ástandi sjúklings hverju sinni. Eflaust verður tekið mið af óskum þínum varðandi meðferð að svo miklu leyti sem hún stríðir ekki gegn því sem talið væri besta meðferð sem völ væri á í hverju tilviki. En ég ráðlegg þér eindregið, að þú (og barnsfaðirinn) ræði málið við starfsfólk viðkomandi geðdeildar.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir