Gæti ég verið með PCO?

Spurning:
Góðan daginn. Ég er 28 ára gömul og hef áhyggjur af því að ég gæti verið með fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PCO). Ég hef aldrei látið á það reyna hvort ég get eignast barn. Alla tíð hef ég þjáðst af offitu, en hef síðastliðna mánuði lést um 25 kíló og veg nú rúm 130 kíló. Ég er 170 cm á hæð. Hvorki er ég epla- né perulaga, heldur er fitudreifingin mjög jöfn.
Um tvítugsaldurinn fór að bera á óæskilegum hárvexti, aðallega á höku, en nokkur hár vaxa á bringu, upphandleggjum og baki. Árið 1998 fór ég til kvensjúkdómalæknis (Jens A. Guðmundssonar), sem greindi mig með vægan hirsutismus, sennilega af völdum offitu. Hann setti mig á Spirix, sem ég tók í tvö ár, en það virkaði ekki. Þá setti hann mig á Yasmin í ár, en það hafði heldur engin áhrif. Árið 1999 fór ég að finna fyrir verkjum í kvið og var sónarskoðuð. Kom þá í ljós að ég var með litla blöðru á eggjastokk sem var fjarlægð í kviðsjáraðgerð. Reyndist þetta vera blaðra á stærð við títiprjónshaus, en verkirnir hurfu og hef ég ekki fundið fyrir neinum einkennum síðan.
Í nokkur ár hefur bæði testosteron og frítt-testosteron verið of hátt (við síðustu mælingu fyrir hálfum mánuði síðan var testosteronið 3.9 og frítt testosteron 6.3). DHEA, LH og FSH hefur aldrei verið mælt en bæði blóðfitur og blóðsykur hefur alltaf verið eðlilegt. Ég hef aldrei misst úr blæðingar né verið með milliblæðingar eða blettablæðingar. Ég blæði alltaf tólf sinnum á ári, en þó líður ekki alltaf jafnlangur tími milli blæðinga. Fæstir hafa þeir verið 26 dagar en flestir 32 dagar. Yfirleitt rokka ég þetta 28-30 daga milli blæðinga.
Ekki á ég við nein húðvandamál að stríða, eins og bólur eða óeðlilega mikið af fílapenslum, og aldrei hef ég átt við hárlos, flösu eða há kollvik að stríða. Óæskilegi hárvöxturinn er aðeins bundinn við höku, bringu og upphandleggi, en ekki efri vör eða háls. Ég á ekki við svitavandamál að stríða, né heldur hidradenitis suppurtiva eða acanthosis nigricans. Engin saga er um vandamál með blöðrur á eggjastokkum eða ófrjósemi í ættinni. Með þessar upplýsingar í huga, langar mig að spyrja hvort PCO sé eitthvað sem gæti verið vandamál hjá mér og hvort ástæða sé til þess að leita læknis. Með kærri þökk,

Svar:
Þetta gæti samræmst PCO. Einkennin virðast þó fremur væg en mér finnst sjálfsagt að láta fylgjast með sér hvað varðar fylgikvilla offitu s.s. blóðfitur, blóðsykur og háþrýsting. Hvort ástæða er til að meðhöndla hárvöxtinn með lyfjum er svo álitamál. Það fer eftir því hversu mikinn ama viðkomandi hefur af þessu. Í þínu tilviki hefur ekki reynt á frjósemi en eins og þú veist er ófrjósemi algengt vandamál hjá konum með PCO. Sykursýkilyfið Glucophage virðist oft geta komið egglosum í gang og aukið þannig frjósemi.

Arna Guðmundsdóttir, sérfræðingur
Hormóna og efnaskiptasjúkdómar