Gáttatif,hvað er það?
Sæl/sæll og takk fyrir fyrirspurnina.
Í stuttu máli sagt er gáttatif (atrial fibrilation) hjartsláttatruflun sem verður þegar rafboð berast að víð og dreif í gáttinni, en ekki frá sinus hnút hjartans eins og eðlilegt er. Einungis berst hluti þessara óskipulögðu rafboða til sleglanna sem veldur því óreglulegum samdrætti slegla og skertu útfalli hjartans.
Helstu einkenni eru hjartsláttaóþægingdi, mæði, hjartabilun og heilaáfall, sem er alvarlegasti fylgikvilli gáttatifs. Talið er að um 30-40% heilaáfalla séu til komin vegna gáttatifs.
Algengt er að gáttatif hefjist með svokölluðum köstum, en hafi gáttatif verið viðvarandi í meir en 6 mánuði og ekki svarað meðferð til að koma hjartanu aftur í réttan takt er það kallað langvinnt gáttatif. Langvinnt gáttatif þarf yfirleitt að meðhöndla til að draga úr fylgikvillum, og þá sérstaklega til að draga úr hættu á heilaáfalli vegna blóðsegamyndunar í hjarta. Meðferð með blóðþynningarlyfjum getur dregið verulega úr líkum á heilaáfalli tengt gáttatifi og því er mikilvægt að leita læknis til sé grunur um að gáttatif sé til staðar.
Hér er hægt að lesa nánar um gáttatif og rafleiðni hjartans hér.
https://hjartalif.is/frodleiksmoli-gattatif/
Gangi þér vel
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur