Geðræn vandamál og reykingar

Spurning:

Sæll.

Ég er reykingamaður, vel rúmlega þrítugur, og hef reykt í rúm tuttugu ár.

Jafnframt hef ég átt við andleg vandamál að stríða, s.s. alvarlega skapbresti, athyglisskort, lágt sjálfsmat og lítinn lífsvilja. Flest þessarra einkenna, að skapbrestunum og athyglisskortinum undanskildum eru fyrri tíma vandamál. Þau tengjast þó því sem á eftir kemur.

Fyrir um áratug gekk ég í meðferð hjá sálfræðingi á Geðdeild LSP vegna sjálfsvígstilraunar, og var þá ráðlagt af sama að hætta alls ekki að reykja, þar sem reykingarnar héldu niðri skapgerðarbrestunum, kvíðaköstum og öðru því er ollu því ástandi sem ég upplifði þá.

Nú er svo komið að ég get varla hugsað mér að reykja lengur. Blóðflæði hefur minnkað til smávöðva í hálsi að því marki að ég er í meðferð hjá sjúkraþjálfa vegna reglulegra höfuðverkjakasta og vöðvabólgu sem sjúkraþjálfinn tjáir mér að sé vegna súrefnisskorts til þessarra vöðva.

Lungnastarfsemi er eðlilega skert eftir allan þennan tíma, og ég lít sennilega út fyrir að vera tíu árum eldri en ég er.

Ég hef reynt að hætta. Skapbrestirnir koma strax á öðrum degi, og eru bæði mér og öðrum í kringum mig hættulegir.

Ég hef reynt að nota Zyban (áritað af heimilislækni). Meðferðin var árangursrík, allt þar til kom að því að hætta á lyfinu. Strax daginn eftir að lyfjanotkun var hætt voru skapbrestirnir orðnir eins og ég hefði verið hættur að reykja í viku.

Nú spyr ég, er til einhver lyfjagjöf, lík zyban, sem hægt er að nota í lengri tíma, og ekki jafn sterk og zyban?
Eru einhverjar aðrar leiðir sem þú mælir með?

Með kveðju,
leiður reykingamaður.

Svar:

Sæll.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að skynsamlegast er að leita sér hjálpar hjá geðlækni, t.d. til að byrja með á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut. Svo virðist vera að sú jákvæða atlaga að hætta reykingunum sem virðast hafa haft þessi líkamlegu skaðlegu áhrif leiði það af sér að andlegi þátturinn fer úr meira jafnvægi en ella. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan þú fékkst ávísun á lyfið Zyban frá þínum heimilislækni og því sjálfgefið og ekki spurning að þú leitir aðstoðar sérfræðings, þ.e. geðlæknis varðandi lyfjatöku yfir höfuð í þínum hremmingum. Miðað við lýsingu þína ætti það að vera jafn sjálfsagður hlutur að leita til geðsérfræðings eins og það er fyrir mann sem haldin er sykursýki að leita til sérfræðings í þeim efnum. Vonumst til að þú brettir nú upp ermar þín og þinna vegna og fáir úrbót sem allra fyrst.

Með kærri kveðju,
Sveinn Magnússon, frkvstj. Geðhjálp