Get ég gerst meðgöngumóðir?

Spurning:
Sæl verið þið.
Þannig er mál með vexti að ég á frænku sem getur ekki gengið með barn, hefur 6 sinnum misst fóstur um og eftir þriðja mánuð þar sem líkami hennar hafnar alltaf þessum „aðskotahlut“. Ég hef alvarlega verið að hugsa um að gerast svokölluð meðgöngumóðir fyrir hana. Sjálf á ég sex ára barn. Ég hef vafrað mikið um netið til að reyna að finna einhverjar upplýsingar um hvernig meðgöngumóðurs-ferlið gengur fyrir sig en ekki haft árangur sem erfiði. Ég bið því ykkur um að gefa mér allar þær upplýsingar um ferlið frá A-Ö sem ég, og við, þurfum að ganga í gegnum svo ég viti algerlega útí hvað ég er að fara áður en ég ákveð mig endanlega.
Með kveðju.

Svar:
Sæl.
Á Íslandi er ekki leyfilegt að gerast meðgöngumóðir nema á eigin ábyrgð og án tæknilegrar hjálpar. Lögin segja að einungis hjón geti eignast saman barn með tæknihjálp og að einungis megi fá erfðaefni frá öðrum aðila fyrir annað hvort hjónanna en ekki bæði. Í lögum nr. 55 29. maí 1996 um tæknifrjóvganir segir orðrétt:
Glasafrjóvgun má því aðeins framkvæma að notaðar séu kynfrumur parsins. Þó skal heimilt að nota gjafakynfrumur ef frjósemi karlsins eða konunnar er skert, annað þeirra haldið alvarlegum erfðasjúkdómi eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumna.

Gjöf fósturvísa er óheimil.

Staðgöngumæðrun er óheimil.

Ætlir þú að ganga með barn frænku þinnar er eina leiðin sú að þú notir þínar kynfrumur og kynfrumur mannsins hennar og að þið eignist þannig barn saman sem þau hjónin taka síðan til ættleiðingar. Þetta er mjög flókið og viðkvæmt mál og sért þú ákveðin í að eignast barn fyrir frænku þína er mikilvægt að þú kynnir þér vel félagsleg og lögfræðileg atriði þess. Best væri sjálfsagt fyrir ykkur, þig, frænkuna og manninn hennar að ræða við félagsráðgjafa kvennadeildar sem eru vel inni í öllu því reglugerðafargani sem fylgir tæknifrjóvgunum og ættleiðingum.

Til nánari glöggvunar bendi ég á vef Tilveru, samtaka gegn ófrjósemi og Lög um tæknifrjóvgun

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir