Get ég verið ólétt aftur?

Spurning:
Mig langar að fá svör hjá þér.
Þannig er mál með vexti að ég átti stelpu í júlí. Er með hana á brjósti. og byrjaði á blæðingum 13. desember, var í 4-5 daga. Svo byrjaði ég aftur 8. janúar og var í tvær vikur og einskonar brún útferð viku eftir það. Svo núna er ég ekki byrjuð aftur. Ég talaði við kvensjúkdómalækni sem sagði mér að taka óléttuprufu sem ég gerði í endaðan janúar. Veistu hvað þetta gæti verið. Ég hugsaði að þetta væri gamalt tíðarblóð en er svo ekki byrjuð aftur á blæðingum. Getur verið að ég sé ófrísk aftur?
Með von um svör. 🙂 Kveðja, Brjóstamamma. 🙂

Svar:
Hafir þú ekki verið að nota neinar getnaðarvarnir er vitaskuld talsverður möguleiki á að þú sért barnshafandi aftur þar sem frjósemi eykst hröðum skrefum eftir að kona hefur aftur tíðablæðingar eftir fæðingu. En sé kona með barn á brjósti er frjósemin samt aðeins minnkuð þannig að egglos og blæðingar verða óreglulegri en ella. Ekki er líklegt að þetta blóð sem kom hafi verið gamalt tíðablóð en hins vegar getur verið að ýra svona úr legslímhúðinni ef hormónastyrkurinn er ekki nægilega hár til að byggja upp þykka slímhúð, t.d. vegna brjóstagjafarinnar. Ætlir þú ekki að verða barnshafandi strax aftur ættir þú endilega að huga að getnaðarvörn en ef þér er sama þótt annað kríli komi strax þarftu ekki að gera þér mikla rellu þótt þú hafir ekki blæðingar – taktu bara þungunarpróf með reglulegu millibili þannig að þú vitir af því þegar þú verður þunguð.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir