Get ekki haft barnið mitt á brjósti?

Spurning:
Sæl Dagný. Ég veit að það er mikið um fyrirspurnir en þar sem ég á ekki tíma í mæðraskoðun aftur fyrr en á 24. viku langaði mig að prófa að senda þér fyrirspurn. Ég er komin 3 mánuði á leið og kem því miður ekki til með að geta haft barnið mitt á brjósti vegna flóknar aðgerðar sem ég þurfti að fara í fyrir nokkrum árum, ljósmóðirin sem ég talaði um þetta við sagði að barnið fengi þá að sjálfsögðu pela strax eftir fæðingu en það sem ég hugsa mikið um núna er hvernig verður þetta ferli fyrir mig og barnið mitt?

Barnið fæðist og fær pelann sinn og hvað svo, fær það að drekka reglulega eða þegar það verður svangt? Á ég að koma með pelann á fæðingardeildina? Ég hafði hugsað mér að fara heim innan 36 tíma en hvað með mjólkina í brjóstunum á mér, hvernig er hún þurrkuð upp og hvenær? Vildir þú vildir vera svo væn að lýsa þessu fyrir mér? Ég finn ekkert um svona lagað hér á netinu og veit ekki um neina sem hefur verið í þessari stöðu.

Þetta er þriðja barnið mitt svo ég er reynd móðir (var með hin börnin á brjósti) og vel lesin en mér finnst óþægilegt að vita ekki hvað ég er að fara út í og finn engar uppl.um þetta. Með fyrirfram þökk.

Svar:
Sæl. Þú ert greinilega búin að fá það alveg á hreint að brjóstagjöf sé út úr myndinni. Það sem mælt er með, ef ekki er hægt að gefa brjóst, er þurrmjólkurbland sem er sérstaklega ætlað ungbörnum. Þurrmjólkin fæst í apótekum og flestum kjörbúðum.

Það er erfitt að lýsa einhverju sérstöku ferli varðandi næringu barnsins. Ekki er ástæða til að ætla annað en að allt í kring um fæðinguna verði eins og með eldri börnin þín. Þegar barnið er fætt færðu það í fangið og hefur það þar svo lengi sem þið eruð bæði sátt. Oftast fara börnin að leita að brjóstinu eftir svona 1/2 til 1 1/2 klst. og þá getur þú gefið barninu þínu pela. Þú þarft ekki sjálf að koma með pelann á sjúkrahúsið, nema þú viljir að barnið noti einhverja sérstaka gerð af pela eða túttu, mjólkina fær það á sjúkrahúsinu. Þurrmjólkurblandan er miðuð við þyngd og aldur barnsins og flest börn vilja pelann sinn á 3-4 klst. fresti. Þið finnið fljótlega ykkar takt í þessu. Þegar heim er komið er best að allt sé tilbúið, þurrmjólkin og 3-6 sótthreinsaðir pelar og túttur. Hægt er að sjóða og blanda í pela fyrir 1/2 til einn dag í senn og geyma í ísskápnum. Það er mjög mikilvægt að fara í öllu eftir leiðbeiningunum á umbúðunum og miða blöndur og skammta við þyngd barnsins.

Eftir fæðingu myndast mjólk í brjóstunum og til að minnka óþægindi af stálma sem myndast séu brjóstin ekki tæmd, er yfirleitt gefið lyf sem hindrar mjólkurmyndun, fljótlega eftir fæðingu. Einnig er gott að vefja brjóstin dálítið þétt með breiðu teygjubindi þar til þau hætta að stálma. Ljósmæðurnar hjálpa þér með þetta áður en þú ferð heim í sængurlegu. Vertu vakandi fyrir eymslum og hita í brjóstunum því það kemur fyrir að það verður að mjólka aðeins úr þeim ef myndast miklir þrimlar. Til að pelagjöfin líkist sem mest brjóstagjöf og einnig til að draga úr líkum á ásvelgingu og eyrnabólgum, fer best á því að sitja með barnið í fanginu meðan það drekkur. Það á aldrei að skilja barnið eftir eitt með pelann eða nota hann til að svæfa það. Nánari upplýsingar um pelagjöf fást hjá ungbarnavernd heilsugæslustöðvanna.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir