Spurning:
Hæ. Er einhver munur á að vera komin 8-12 vikur á leið og fara til útlanda (aðra heimsálfu en Evrópu) eða vera komin 4-8 vikur á leið? Ég hef heyrt að fóstrin séu viðkvæmari á ákveðnu skeiði. Geta skordýra- eða flugnabit haft einhver áhrif á fóstrið? Ég hef heyrt að konur segja að það sé númer eitt og tvö að mömmunni líði vel þá líði barninu vel, er það rétt?
Kveðja, ein í barnahugleiðingum.
Svar:
Mesta hættan á fósturskemmdum er á þeim tíma sem fóstrið er í mótun – þ.e. líffærin að myndast á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Það er mismunandi hvenær hvaða líffæri myndast en öll hafa þau myndast um 10. viku fósturskeiðs en eiga þá eftir þroska og vöxt. Því fyrr sem óæskileg áhrif koma fyrir því meiri hætta á líffæraskaða. Verði móðirin veik getur það haft mjög slæm áhrif á fóstrið í byrjun fósturþroska og sértu á leið til landa þar sem hætta er á að smitast af alvarlegum sjúkdómum þarftu að láta bólusetja þig mörgum vikum áður en þú ferð. Ath. að það má ekki bólusetja barnshafandi konur. Einnig gætir þú þurft að taka malaríulyf meðan þú ert erlendis. Heillavænlegast væri því sjálfsagt að bíða með barneignir þar til komið er heim á ný.
Það er ekki nema hálfur sannleikur að ef mömmunni líði vel líði fóstrinu vel, en það er rétt að kona sem lifir hollu lífi og lætur sér þannig líða vel á meiri möguleika á að eignast hraust og heilbrigt barn.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir