Getur hvítlaukur drepið vægar bakteríur?

Spurning:

Sæll Ólafur

Mig langar til að vita hvort að ágæti hvítlauks hafi verið rannsakað? Er t.d. hægt að ganga að því vísu að hvítlaukur geti drepið vægar bakteríur, eins og kvefbakteríur?

Fyrirfram þakklæti fyrir svarið.

Svar:

Sæll.

Margar rannsóknir hafa verið framkvæmdar sem sýna fram á virkni hvítlauks. Hér verður vitnað í íslensku Lyfjabókina:

Allicin, en það er virka efnið í hvítlauk, „…hefur andoxunaráhrif. Þannig getur það hindrað oxun í líkamanum og þar með myndun skaðlegra efna sem eru fylgifiskar oxunarinnar. Ferskur hvítlaukur getur minnkað samloðun blóðflagna og þar með storknunartilhneigingu blóðsins. Hann hefur líka jákvæð áhrif til lækkunar bæði á blóðsykur og blóðþrýsting og getur lækkað magn blóðfitu bæði kólesteról og þríglýseríða. Auk þess getur ferskur hvítlaukur bætt hlutföll hinnar jákvæðu (HDL) og neikvæðu (LDL) blóðfitu. Talið er að regluleg neysla fersks hvítlauks geti veitt vörn gegn hjarta og æðasjúkdómum. Erfitt er að segja til um verkun lyktarlauss hvítlauks og annars unnins hvítlauks. Vísbendingar eru um fyrirbyggjandi áhrif hvítlauks gegn krabbameini, en frekari rannsókna er þörf. Því hefur verið haldið fram að hvítlaukur hafi sýklahemjandi verkun. Nýrri rannsóknir benda til þess að hvítlaukur hafi ekki marktæka sýklahemjandi verkun í líkama manna."

Varðandi það hvort hvítlaukur geti drepið vægar bakteríur þá tel ég það harla ólíklegt enda segir í síðustu setningunni hér að ofan „rannsóknir benda til þess að hvítlaukur hafi ekki marktæka sýklahemjandi verkun í líkama manna."

Hvað varðar kvef þá er kvef ekki til komið vegna bakteríusýkingar heldur veirusýkingar. Og þess má geta að engin sýklalyf eru þekkt sem virka gegn veirusýkingum.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur