Getur lágsæta haft áhrif á fóstrið?

Spurning:
Ég er 24 ára og ófrísk af mínu fyrsta barni og komin rúmar 20 vikur. Ég fór í ómskoðun og var tilkynnt að ég væri með lágsætu og þyrfti kannski að fara í keisara og svo var mér ekkert sagt neitt meira, ég var í pínu sjokki svo mér datt engar spurningar í hug og núna veit ég ekkert um þetta, ég finn ekkert um þetta í bókum eina sem ég finn er ef fylgjan er fyrirsæt. Getur þetta haft einhver áhrif á fóstrið? Er eitthvað sem ég þarf að varast?

Svar:
Það er mismunandi hvar eggið tekur sér bólfestu þegar það kemur frjóvgað niður í legið. Stundum festist eggið það neðarlega í leginu að fóstrið og þar með fylgjan, vex í útjaðri legsins upp við leghálsinn. Það getur orðið til þess að fylgjan vex yfir leghálsinn eða alveg í leghálsbrúninni. Þegar svo leghálsinn fer að opnast þá opnast hann inn í fylgjuna þannig að æðarnar til barnsins rofna. Sé fylgjan ekki það lágsæt að hún vaxi yfir leghálsinn er möguleiki að hún færist ofar þegar teygjist á leginu er líður á meðgönguna. Yfirleitt er það skoðað aftur í sónar við 34 – 36 vikur.

Sé fylgjan enn mjög lágsæt þá og hætt við að hún rifni upp við fæðinguna er metið hvort ekki sé rétt að gera keisaraskurð áður en fæðing hefst. Hafi fylgjan færst aðeins frá leghálsinum ætti að vera óhætt að fæða á eðlilegan hátt. Fáðu betri upplýsingar hjá ljósmóðurinni þinni í mæðravernd – hún sér myndirnar og getur aflað nánari upplýsinga fyrir þig.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir