Getur verið um andlegt ofbeldi að ræða í sambúðinni?

Spurning:

Sæll.

Ég er í svolitlum vandræðum með kærastann minn. Málið er að hann á það til að „detta" niður í einhverja lægð. Hann vill helst bara horfa á sjónvarpið og ekkert annað. Við erum nýbakaðir foreldrar sem er mjög gott mál. Ég hef verið á þunglyndislyfjum og líkað mjög vel (Fontex). Ef ég tala um geðlækna, lækna og geðlyf þá „lokar" hann eyrunum, hann vill ekki hlusta á mig. Hann er mjög þungur að eðlisfari. Hann á það til að reiðast þegar ég segi e-ð og fara í fílu að tilefnislausu, ég verð gjörsamlega að læðast í kringum hann. Ég á það til að láta allt eftir honum.

Hann er ekki vondur strákur, síður en svo, en hann getur reiðst alveg rosalega og ef ég stoppa það ekki með rólegheitum þá mundi allt fuðra upp. Hann segist alltaf ætla að taka sig á, en þetta fer allt í sama farveg aftur innan tíðar. Ég get ekki neytt hann til að fara og tala við geðlækni, hann verður að gera það sjálfur. Það segir honum enginn hvernig hann á að lifa lífinu. Hann er þrjóskasti maður sem ég hef kynnst, hann vill ekki hlusta á neinn hann fer bara í mjög vont skap ef maður er að reyna að segja honum til, hann veit allt best sjálfur. Þannig að ég hef vanið mig á að læðupokast í kringum hann. Vinkonur mínar hafa meira að segja talað um andlegt ofbeldi, en ég er svo góð að eðlisfari að ég átta mig ekki á því.

Ég hef hugsað mér að „byrla" honum þunglyndislyfjum, en ekki fæ ég þau án hans vilja. Ég elska hann og hann er faðir barnsins míns, en hann er rosalega erfiður, ég er oft að missa þolimæðin á honum.

Það er ekkert líkamlegt ofbeldi í gangi, en næstum því einu sinni þegar við vorum í „glasi" þá munaði rosa litlu að við myndum slást (smá handalögmál samt, ég er líka skapstór), svo við ákv. að hætta að drekka. Við fáum okkur bjór af og til en ekkert djamm saman, við erum bæði svo afbrýðisöm.

Kannski tekur hann sig á ef ég hóta að fara frá honum. Ég hef oft „íjað" að því, og hvað hann myndi gera þá. En hann ætlar alltaf að taka sig á og er góður í nokkurn tíma á eftir. Hann vill nefnilega ekki missa mig (segir mér það allavega), hann myndi ábyggilega enda einn á endanum. Það er ekki fyrir hvern sem er að búa með honum. En þetta er ekki alslæmt, ég er elska hann. Ég tel mig vera mjög góðan mannþekkjara og svolítinn „sálfræðing" í mér, þannig að þetta er einhverskonar áskorun og ég ætla að vinna (komast inn fyrir múrinn hans). Ég hef átt mjög létt með að kynnast fólki, mjög glaðleg og gef færi á mér, en hann er andstæða frekar. Við samt „smullum" saman fyrir tveim árum síðan og höfum verið límd síðan, rosa góðir vinir, allavega að ég held (næ samt ekki alveg til hans).

Vona að þú getir gefið mér einhver góð ráð sem koma mér að gagni í þessu máli (einhver sem ég ekki veit).

Ein í vandræðum.

Svar:

Blessuð og sæl.

Það má kannski byrja á því að segja að allt ofbeldi, eins og þú veist, er óafsakanlegt. Ofbeldi á heimili og í sambúð getur birst í mörgum myndum. Líkamlegt ofbeldi er líklegast það sem flestum dettur í hug þegar talað er um ofbeldið. En það er líka til andlegt ofbeldi, eins og þú reyndar nefnir sjálf í bréfinu þínu. Andlegt ofbeldi felst m.a. í kúgun, þar sem sá er beitir ofbeldinu neyðir þann sem fyrir ofbeldinu verður til þess að sitja og standa eins og hann eða hún vill.

Óttinn við ofbeldið eða það hvað kann að gerast er það sem er líkt með fórnarlömbum andlegs og líkamlegs ofbeldis.

Sá sem verður fyrir líkamlegu ofbeldi reynir að gera allt til að þóknast kúgara sínum og þannig að koma í veg fyrir líkamsárás sem ætíð er yfirvofandi. Oftast gengur það ekki, því kúgarinn vill kúga og er laus hnefinn, leitar uppi ímynduð tækifæri til þess að skeyta skapi sínu á fórnarlambinu.

Alveg eins reynir sá er verður fyrir andlegu ofbeldi að læðast kringum þann er ofbeldinu beitir, láta allt eftir honum og gerast allt til að þóknast ofbeldismanninum. Annars reiðist hann, fer í slæmt skap, fuðrar upp og svo framvegis. Þá er líka stutt í líkamlega ofbeldið, stundum á sér jafnvel stað þróun úr hinu andlega og yfir í hið líkamlega ofbeldi.

Ofbeldi er aldrei afsakanlegt, hvorki andlegt, líkamlegt né nokkuð annað.

Ofbeld á heimilum í einhverri mynd er tiltölulega algengt fyrirbæri, því miður.

Þeir sem búa við ofbeldi af einhverju tagi reyna oftast að fela það út á við. Ofbeldið verður þannig gjarnn best varðveitta leyndarmál fjölskyldunnar.

Ofbeldi innan fjölskyldunnar tengist gjarnan áfengismisnotkun eða misnotkun á vímuefnum af einhverju tagi. Það þarf þó alls ekki að fara saman þó oft valdi langvarandi misnotkun áfengis og vímuefna ofbeldishneigð. Margir nota vímuna sem afsökun fyrir ofbeldishneigð sinni, en sú afsökun er í raun marklaus. Víman kallar aðeins fram ofbeldis tilhneigingar sem búa undir niðri.

Ofbeldi í hjónabandi eða sambúð fylgir oft ákveðnu ferli. Áður en ofbeldið brýst fram á sér stað einskonar spennuhleðsla. Parið veit að brátt verður gripið til ofbeldisins, hver svo sem ástæðan er. Konan, sem oftas
t er fórnarlambið ásamt börnunum, gerir allt sem hún getur til þess að blíðka manninn og koma í veg fyrir árás á sig eða börnin. Maðurinn svarar með auknum yfirgangi sem endar með ofbeldi. Eftir að ofbeldið hefur átt sér stað segist maðurinn sjá eftir öllu saman og gerir allt sem hann getur til þess að sannfæra konuna um að þetta muni aldrei gerast aftur. Konan reynir þá gjarnan að gleyma því sem gerðist en eftir ákveðin tíma endurtekur allt þetta ferli sig. Ef áfengis og vímuefnanotkun eru með í spilinu hjá öðrum eða báðum aðilunum, fórnarlambinu og ofækjandanum, er afneitun gjarnan fylgisfiskur ofbeldisins.

Eitt af því sem einkennir þann sem beitir ofbeldi innan veggja heimilisins er, að hann kemur fram sem tvær gersamlega óskyldar mannverur. Á það við bæði um karla og konur, þó oftast séu það karlar sem beita ofbeldi eins og fyrr segir. Utan veggja heimilisins kemur sá er fyrir ofbeldinu stendur fram eins og hinn fullkomni heimilisfaðir en um leið og heim er komið vill hann öllu ráða og kúgar heimilisfólkið. Allir verða að lúta vilja hans. Með öðrum, t.d. á vinnustað, er hann gjarnan elskulegur og viðfeldinn en innst inni þráir hann vald í einhverri óljósri mynd. Sá er beitir ofbeldi á heimili sínu þjáist gjarnan af einhverkonar minnimáttarkennd sem aftur verður kveikja ofbeldisins t.d. þegar áfengi er haft um hönd. Fórnarlambinu er þá kennt um allt í lífinu sem ekki hefur gengið eins og ofbeldismaðurinn vildi, jafnvel það að hann skuli beita ofbeldi.

Ofbeldismaðurinn leitar sér líka ógjarnan hjálpar að fyrra bragði.

Allir þeir sem búa við slíkt ofbeldi innan heimilisins í einni eða annarri mynd ættu að leita sér aðstoðar. Og það er nú mitt ráð til þín, eftir að hafa lesið bréfið þitt, að þú leitir þér slíkrar aðstoðar, því margt finnst mér vera líkt með ykkur og því ástandi sem ég hef verið að lýsa fyrir þér.

Mörg samtök bjóða upp á hjálp . Og þó erfitt geti verið að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að sambúðin er komin í óefni, þá er sú viðurkenning gjarnan fyrsta skrefið burt úr aðstæðum sem til lengdar brjóta einstaklinginn niður.

Kveðja,
Sr. þórhallur Heimisson.