Gin- og klaufaveiki í börnum?

Spurning:

Ég fór með dóttur mína til læknis í gær sem greindi hana með „gin og klaufaveiki”. Er þetta sami sjúkdómurinn og sá sem er að valda kúafárinu? Ég er ófrísk, er einhver hætta á að fóstrið skaðist ef ég veikist einnig af sjúkdómnum?

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það sem gjarnan er kallað „gin og klaufaveiki“ í daglegu tali er í raun það sem heitir Handa-, fóta- og munnsjúkdómur (Hand, foot and mouth disease) og er ekki sami sjúkdómurinn og sú gin- og klaufaveiki sem leggst á bústofn.

Handa-, fóta- og munnsjúkdómur er algengur hjá ungum börnum, en allir aldurshópar geta sýkst. Sjúkdómurinn er orsakaður af veirum sem kallast coxsackie veirur og berast þær bæði með úða og snertismiti. Sá tími sem líður frá því að smit verður og þar til einkenni koma fram eru 2–3 dagar. Einkennin eru litlar blöðrur sem eru mest áberandi á lófum, iljum og í munni og koki. Þessar blöðrur springa svo og myndast þá smá sár sem gróa á 2–4 vikum. Einnig getur fylgt vægur hiti og slappleiki. Sárin í munni og hálsi valda hvað mestum óþægindum og því getur verið óæþægilegt fyrir sjúklinginn að borða.

Sjúkdómurinn er í flestum tilfellum mildur og ekki þörf á neinni sérstakri meðferð, þó getur verið gott að nota parasetamól til að minnka óþægindi í munni og lækka hita. Rétt getur verið að láta börn ekki á leikskóla fyrstu dagana vegna smithættu, en erfitt er þó að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Hvað þig sjálfa varðar þá er sjúkdómurinn algengastur í börnum en fullorðnir geta einnig sýkst. Þessi veira er ekki ein af þeim sem er þekkt af því að valda skemmdum á fóstrum og því þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að það geti gerst.

Gangi ykkur vel,
Kveðja, Sólveig Magnúsdóttir, læknir.