Golfolnbogi (medial epicondylitis)

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég hef að því að mér skilst golfolnboga mig langar að spyrja af hverju er ekkert fjallað um golfolnboga? hvað er gert við golfolnboga?
Ef farið er út í aðgerð hversu langan tíma tekur að jafna sig eftir aðgerðina?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæll.

Þú spyrð af hverju ekkert sé fjallað um golfolnboga. Golfolnbogi ( golfer's elbow) er einnig undir heitinu medial epicondylitis. Oft er vitnað í tennisolnboga (tennis elbow) þegar kemur að útskýringum á einkennum og meðferð. Golfolnbogi orsakast af bólgum í beinhimnunni (tenoperiostitis) á innanverðum olnboga á upphandleggsbeininu (humerus). Vöðvar sem festast þarna eru beygjuvöðvar úlnliðs, einnig stjórna þeir innsnúning á framhandlegg. Mikilvægt er að þú hvílir þig frá athöfnum sem erta festurnar og vöðvana sem mest, en óhætt er að þjálfa aðra vöðva líkamans og stunda jafnframt þolþjálfun. Þú þarft jafnframt að huga að vinnuaðstöðu þinni og athuga hvort þar sé að finna orsökina. Eða ef þú stundar einhverjar íþróttir að láta þá yfirfæra tæknina. Meðferðin eins og áður segir felst í því að forðast athafnir sem valda verk í olnboganum. Jafnvel er gott að fara í stoðtækjafyrirtæki og fá sér olnbogahlíf. Einnig er mikilvægt að forðast að vera með olnbogann í fullri beygju tímunum saman eins og t.d. halda lengi á símtólinu upp að eyranu, sofa með handlegginn boginn upp fyrir ofan höfuð svo dæmi séu tekin. Í „acute fasa”, fyrstu 10 dagana, er gott að nota ísbakstur eða nudda svæðið með klaka. Síðan er gott að skiptast á að hafa hita og ís á svæðinu.

Þegar verkur og bólga hafa gengið niður eða minnkað verulega, er óhætt að hefja aftur styrktar- og liðleikaæfingar. Sjúkraþjálfari getur leiðbeint þér með æfingar, bæði teygju- og styrktaræfingar. Meðferð hjá sjúkraþjálfara er einnig fólgin í þvernuddi, hljóðbylgjum, rafmagnsmeðferð og nálastungum.

Við þrálátum golfolnboga sprautar læknirinn bólgueyðndi efni, allt frá 1 -3 sinnum. Hvíla þarf handlegginn frá áreynslu í 2 vikur á eftir. Ef allt hefur verið reynt til þrautar, er stundum gerð aðgerð. Töluverðan tíma tekur að jafna sig eftir slíka meðferð og getur endurhæfing tekið allt frá 8 -12 vikum á eftir.

Kær kveðja,
Steinunn Sæmundsdóttir MTc sjúkraþjálfari