Spurning:
Halló
Ég er ný orðin ólétt og er komin 7v á leið. Mín spurning er sú, getur verið að ég sé byrjuð að fá grindargliðnun? Ég á erfitt með að sitja lengi eða standa lengi í sömu stöðu og að skúra og ryksuga er bara HRÆÐILEGA sárt þannig að ég gæti farið að grenja og get ekki gengið á eftir! Ég á barn fyrir sem er að verða 7 ára og fann ekki fyrir þessu á þeirri meðgöngu. Hvað get ég gert til að láta mér líða betur og hvað á ég að gera í sambandi við vinnuna mína,ég vinn við heimilishjálp og þarf að ryksuga skúra og þrífa 2 stór heimili á dag og þetta er að ganga fram af mér! Ég vil taka það fram að verkirnir eru í lífbeininu rófubeini og aftan í baki og mjöðmunum. Með fyrirfram þökk og ósk um SKJÓT svör Kv Gölluð
Svar:
Það kemur einstaka sinnum fyrir að konur fara að finna fyrir grindarverkjum strax og þær verða barnshafandi. Það sem væri best fyrir þig væri að fá strax beiðni til sjúkraþjálfa og fá almennilega greiningu á ástandinu og byrja strax í meðferð og stuðningi. Þú gætir þurft að draga úr eða skipta um vinnu en til þess þarf læknir að skoða þig og greina ástandið. Hann skrifar svo fyrir þig beiðni til sjúkraþjálfa. Líklegt er að þegar þetta byrjar svona snemma í meðgöngu þá þurfir þú að vera undir eftirliti sjúkraþjálfa út meðgönguna og jafnvel aðeins áfram eftir fæðingu.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir