Grindargliðnun og sjúkraþjálfun

Spurning:

Ég átti barn fyrir 18 mánuðum og fann fyrir grindarverkjum strax á 5 mánuði, ég byrjaði að fara til sjúkraþjálfara á 7 mánuði og fékk líka stuðningsbelti en mér fannst hvorki beltið né sjúkraþjálfunin virka. Eftir fæðinguna var ég líka frekar slæm af verkjum og byrjaði aftur í sjúkraþjálfun en fannst ekkert lagast. Ég verið með verki af og til síðan en gat tengt þá við of mikið álag eða of langar setur.

Núna fyrir 3 vikum datt ég frekar illa á hliðina og verkirnir eru komnir margfaldir til baka, ég fer í heitt bað svona tvisvar á dag og þarf að taka verkjalyf til að geta sofið, hvað get ég gert?? sjúkraþjálfunin hjálpaði ekki og ég hef hreinlega ekki efni á að fara til nuddara (ég reyni að nudda mig sjálf eins og ég get).

Mig vantar hjálp!!

Svar:

Þar sem þetta langt er liðið síðan þú fékkst grindargliðnun er aðalástæða þess að þú finnur til núna áverkinn sem þú fékkst þegar þú dast á hliðina. Þó að þú hafir ekki fengið bata með sjúkraþjálfuninni þá, er ekki þar með sagt að þú getir ekki náð árangri nú. Það skiptir öllu máli með hvaða hugarfari þú ferð í slíka meðferð og það er mjög mikilvægt að þú fáir góða leiðbeiningu í líkamsbeitingu og farir eftir þeim við heimilisstörf og umönnun barnsins. Þegar þú ert kominn úr versta verkjafasanum þarft þú að læra styrkjandi og úthaldsaukandi æfingar fyrir maga og bakvöðva, gæta að líkamsstöðu þinni og vera í sem bestu líkamlegu formi. Það ásamt að hæfilegu samspil á milli vinnu og hvíldar í lífi þínu mun þá koma í veg fyrir eða draga úr bakverkjaköstum í framtíðinni.

Að vera með lausa grind eftir barnsburð gerir þið vissulega viðkvæmari fyrir bakverkjum en það er hlutur sem þú verður bara að kyngja og reyna að gera allt sem í þínu valdi stendur til að láta þér batna. Nudd er vissulega gagnlegt en slær þó yfirleitt aðeins á einkennin í skemmri tíma ef ekki er gætt að orsakaþáttum verkjanna. Það hryggir mig einnig ef fólk telur sjúkraþjálfun vera annars flokks valkost fyrir þá sem ekki hafa efni á því að fara til nuddara. Ég tel að sjúkraþjálfun, þ.e.a.s blanda af nuddi, æfingum, ráðleggingum og annarri meðferð hljóti að vera öflugri kostur í meðferð en nudd eingöngu. Ekki aðeins vegna þess að hann er ódýrari heldur líka betri. Ef að þú telur þig ekki hafa fengið nógu góða þjónustu þar sem þú varst áður er sjálfsagt fyrir þig að leita annað t.d. til sjúkraþjálfara sem er með sérfræðimenntun í Manual therapy (liðfræði)

Kveðja,
Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari