Spurning:
Góðan dag!
Ég er komin 19 vikur á leið og í síðustu mæðraskoðun kom það í ljós að ég er með grindarlos. Um daginn þegar við hjónin ætluðum að hafa samfarir fékk ég þvílíka verki í magann, getur það eitthvað tengst grindarlosinu? Er allt í lagi að hafa samfarir ef um grindarlos er að ræða?
Svar:
Verkir sem tengjast grindarlosi koma oftast í spjaldhrygg og lífbein. Þeir geta hins vegar einnig leitt út í nára og kring um þvagblöðru svo mögulega hefur þessi magaverkur verið út frá grindinni. Þó getur einnig verið að þetta hafi verið samdráttarverkur því legið dregst saman við fullnægingu. Beri mikið á slíkum verkjum eftir samfarir ættir þú að ræða við lækni. Að öðru leyti er allt í lagi að stunda samfarir á meðgöngu þótt kona hafi grindarlos – það þarf bara að finna þægilegar stellingar þar sem ekki kemur mikið tog eða gliðnun á mjaðmagrindarliðböndin. Bestu stellingarnar eru á fjórum fótum eða á hlið. Félag sjúkraþjálfa hefur gefið út bækling um grindarlos og þú ættir endilega að fá hann hjá ljósmóðurinni þinni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir