Hæsi

Sæl verið þið
Mig langar að forvitnast er eitthvað hægt að gera við hæsi nú er ég búin að vera með hæsi í rúma viku og smá hósta
Takk fyrir

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Hæsi er mjög algengt einkenni vírussýkinga og er þá gjarnan í samfloti við hálsbólgu, kvef og hósta. Sýkingar af völdum baktería eða sveppa geta haft hæsi í för með sér en það getur einnig orsakast af álagi á raddbönd, svo sem við mikinn söng, tal eða öskur. Langvarandi kinn- og/eða ennisholubólgur er nokkuð algeng ástæða hæsi, en slík sýking getur sömuleiðis valdið þrálátum hósta.

Algeng ráð eru:

  • Drekka heitt te eða jurtaseyði, gjarnan með hunangi. Gott orðspor fer af engifer, hvítlauk og læknastokksrós (marshmallow) svo lítið sé nefnt
  • Eintómt hunang úr skeið við hálsbólgu og hæsi. Hunang hefur græðandi og mýkjandi áhrif.
  • Anda að sér heitri gufu eða fara í heita sturtu
  • Notast við hálsbrjóstsykur og hóstasaft miðað við einkenni og skv. leiðbeiningum á pakkningu
  • Hvíla röddina og reyna að tala sem minnst
  • Drekka nóg af vökva

Ef hæsi er langvarandi er best að ráðfæra sig við heimilislækni þar sem fleiri orsakir geta legið að baki, svo sem bakflæði. Einnig getur mikil áfengisneysla og/eða reykingar valdið hæsi.

Ef hæsi kemur skyndilega fram án þekktrar ástæðu og er viðvarandi svo vikum skiptir er mikilvægt að leita læknis vegna möguleika á krabbameinsmyndun í hálsi eða skjaldkirtli.

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur