Spurning:
Mig langar að vita hvort einhver sérstök krydd og sterkur matur hefur slæm áhrif á fóstrið? Ég var í sólarferð áður en ég vissi að ég væri ólétt, það var svakaklega heitt, (uþb.30 gráður á miðnætti)ég var í sólbaði á hverjum degi, en hoppaði samt oft út í laugina. Eru miklar líkur á að slíkur hiti hafi getað skaðað fóstrið? Þegar ég kom heim var ég komin átta vikur á leið, og er núna komin 18 vikur. Það er ekki langt síðan mér var sagt að hiti gæti verið skaðlegur fóstrinu, þannig að ég fór í pottinn í sundi og í heitt bað. Ég fékk sjokk þegar ég frétti að það mætti ekki, og hef nú áhyggjur af því að skaði hafi hlotist af. Þegar ég var ég var úti reykti ég 2 svar hass og drakk nokkrum sinnum, ég hef líka áhyggjur af því, getur þú sagt mér hvað ég get gert?
Svar:
það er líklegast ekki æskilegt að borða eldsterkan mat á meðgöngu og meðan barn er haft á brjósti. Enda tala Kínverjar (og fleiri þjóðir) um meðgöngu sem heitt ástand og þá á maður síður að borða "heitan" mat eins og krydd. Hvað varðar veru þína í hitanum í útlöndum þá er vitað að ef líkaminn hitnar mikið þá getur það valdið fósturskaða og jafnvel fósturláti. Hafir þú kælt þig vel þegar þér fór að verða heitt eru ekki miklar líkur á að fóstrið hafi skaðast.
Áhrif hassnotkunar á meðgöngu eru ekki nægilega þekkt en vitað er að börnin geta orðið vaxtarskert sé þess neytt þegar lengra líður á meðgöngu. Kannabis sækir í fituvef, eins og heilann, en áhrif þess eru ekki nægilega mikið rannsökuð til að sanna að það valdi greindar- og þroskaskerðingu. Áfengisnotkun á meðgngu veldur skaða en ekki er vitað hversu mikið eða lítið þarf til þess.
Bendi ég þér á nýjan bækling frá Landlækni um vímuefni og meðgöngu. Þar sem þetta er þegar skeð er best fyrir þig að fá góða skoðun í sónarnum við 19 vikur og vitaskuld hætta strax notkun áfengis og annarra efna til að barnið fái góða möguleika það sem eftir er meðgöngunnar. Ef þú hugsar vel um barnið núna og áfram út meðgönguna dregur þú úr þeim skaða sem hugsanlega hefði getað hlotist. Vertu þó ekki að velta þér upp úr þessu en ræddu áhyggjurnar við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir