Hálskirtlataka

Ég er 23 ára hugsa vel um tennurnar en er alltaf svo andfúl og held ég viti ástæðuna. Í hálskirtlunum eru hvítir kögglar sem ég þarf nokkuð oft að kreista út og það er ógeðsleg lykt af þeim, minnir helst á skítafýlu. Man eftir að hafa verið með svona síðan ég var 16 en er búin að fá alveg nóg! Er möguleiki á að fara í hálskirtlatöku út af þessu vandamáli og hvað myndi það ca kosta. Væri mögulega hægt að fá þessa aðgerð niðurgreidda? Við hvern þarf ég að hafa samband út af þessu vandamáli, tannlæknir eða annar læknir?

Góðan dag.

Þar sem þú ert búin að eiga í þessu í mörg ár og ekki með önnur einkenni t.d. veirusýkingar eru allar líkur á því að þetta séu steinar sem eiga það til að myndast í holum á hálskirtlunum. Þar safnast saman t.d. matur, munnvatn og dauðar húðfrumur sem svo umvefjast bakteríum og sveppum. Það sem þú getur gert er að halda áfram að hugsa vel um tennurnar, bursta tunguna vel eins langt aftur í kok og þú þolir og skola kokið reglulega með saltvatni.

Í mjög slæmum tilfellum er mögulega gerð hálskirtlataka en hafa verður í huga að hálskirtlataka á fullorðinsaldri er ekki eins lítil aðgerð og það hljómar. Töluverð blæðingarhætta er eftir aðgerðina og sumir verða mjög verkjaðir í allt að tvær vikur á eftir. Háls-, nef- og eyrnalæknar gera aðgerðina svo ég ráðlegg þér að panta tíma hjá einum slíkum sem getur þá metið hvað sé hægt að gera í þínu tilfelli. Ef HNE læknir ákveður að þú þurfir aðgerð þá er aðgerðin niðurgreidd en þú borgar alltaf komugjald til læknisins og aðgerðargjald fyrir aðgerðina sem ræðst af því hversu mikið þú hefur greitt fyrir heilbrigðisþjónustu síðustu mánuði.

Gangi þér vel.

Oddný Þorsteinsdóttir,

hjúkrunarfræðingur