Handariða – nokkrar spurningar?

Spurning:
Ég er 41 árs kona. Ég hef alltaf átt við handariðu að stríða. Ég held að þetta sé meðfætt, því ég get ekki rakið þetta til neinna sérstakra áfalla. Þetta er mjög hvimleitt. Ég hef verið með 40. mg. af propanolol til að taka við hentugleika en verra er að maður þyrfti að taka þetta að staðaldri, því maður veit aldrei hvenær ég get átt von á þessu. Stundum við minnstu streitutilfelli sem svo kannski næst lætur ekki á sér bera. 1. Er ekki neitt annað lyf en propanolol sem til er við þessu. Mér finns ekki mjög spennandi að lesa hvers vegna þetta lyf er gefið að öðru leyti svo og vegna hliðarverkana sem geta gert vart við sig. 2. Hvers vegna kemur handariða fram. Er það vegna æðarþrenginga. 3. Er betra að taka lyfið að staðaðldri, en að taka það eftir hentugleikum. Ég tek það fram að ég tek aðeins 1/4, 1-2´svar á dag eftir hentugleikum. 4. Eru aðrið hlutir sem geta haft sterk áhrif á þetta. sbr. kaffi í litlu magni, koffíndrykkir og svo frv. 5. Ef maður finnur fyrir snert af skammdegisþunglyndi er þá hætt við að inntaka lyfsins, auki það.
Með fyrirfram þökk

Svar:
1. Svokallaðir beta-blokkarar eins og própranólól draga úr handriðu sem getur verið af ýmsum orsökum. Þessi lyf hafa verið misnotuð af þeim sem taka þátt í keppni í skotfimi vegna þessarar verkunar. Própranólól er þó sá eini sem er skráður með þessa ábendingu hér á landi. Ég þekki ekki til annarra lyfja sem eru notuð við óskilgreindri meðfæddri handriðu. Þó gæti verið um slíkt að ræða. Þú þarft að leita ráða um það hjá lækninum þínum. Til eru hins vegar lyf sem virka á handriðu af sem stafar af sértækum sjúkdómum eins og t.d. Parkinsonsjúkdómi, sem er allt annað mál. 3. Öruggara er að taka lyfið að staðaldri. Ef þér dugar að taka 1/4 úr 40 mg töflu 1-2 svar á dag, er það mjög lágur skammtur sem lítil hætta er á að valdi slæmum aukaverkunum. Í því sambandi er einnig vert að benda á að própranólól er einnig til sem 10 mg töflur sem væru þá mun handhægari. 5. Þunglyndi er nefnt sem möguleg en mjög sjaldgæf aukaverkun af lyfinu (minna en 1/1000) Það ætti því ekki að vera nein veruleg hætta á að taka lyfsins hafi áhrif á skammdegisþunglyndi.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur  2. Handariða getur stafað af ýmsum ástæðum, sérstækum sjúkdómum, neyslu eða verið eins og í þínu tilfelli óskilgreind og án sýnilegrar ástæðu. Hugsanlegt er að það geti stafað af einhverjum þrengingum ég þekki það því miður ekki. 4. Það er vel hugsandi að kaffi eða aðrir koffíndrykkir geti haft áhrif, þú verður einfaldlega að prófa þig áfram sjálf með það hvort þér finnist einkennin minnka ef þú sleppir því.  Með góðri kveðju, Jórunn Frímannsdóttir Hjúkrunarfræðingur www.Doktor.is