Spurning:
Góðan dag.
Ég er 29 ára gömul kona og hef átt í basli með magann frá því að ég man eftir mér, málin standa þannig að oftast er ég með mjög mikið harðlífi en þess á milli mjög slæman niðurgang. Það hafa verið tekin sýni en það virðist ekki vera neitt sjáanlegt vandamál. En þetta er samt sem áður mjög óþægilegt og þreytandi (er til dæmis iðulega með gyllinæð). Ég á tæplega tveggja ára gamla dóttur og hún virðist eiga í sömu vandræðum. Þess vegna langar mig að vita hvort sé möguleiki á að þetta sé einhverskonar fæðuóþol og fá þá kannski ráðleggingar með mataræði, eða bara hvað ég get gert svo þetta lagist.
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Komdu Sæl.
Til að komast að því hvort og þá hvaða næringarþættir hafa áhrif á heilsu þína er mikilvægt að markvisst sé fylgst með neyslunni í ákveðinn tíma með aðstoð matardagbókar. En einkennin sem þú nefnir má oft rekja til mataræðis. Þannig er tengsl á milli harðlífis og of lítillar neyslu trefjaefna og í ljós hefur komið að þeir sem þjást af gyllinæð eru gjarnan í meiri fituneyslu en æskilegt er. Slæmur niðurgangur getur verið merki um fæðuóþol. Þrátt fyrir þetta geta aðrir þættir svo sannarlega verið áhrifavaldar svo sem streita og læknisfræðilegar ástæður, sem mér þó skilst að hafi ekki greinst með sýnistöku.
Með þær upplýsingar sem þú veitir í spurningu þinni er mér því miður ómögulegt að gefa þér haldbetri næringarfræðilegar upplýsingar en þær að kappkosta að borða í anda manneldisstefnunnar. Aftur á móti myndi ég telja ráðlegt að þú leitir eftir ráðgjöf hjá næringarfræðingi þar sem markvisst verði farið yfir mataræði ykkar mæðgininna í lengri tíma til að fá úr því skorið hvort og þá hvað það er í mataræðinu sem veldur þeim meltingarkvillum sem þið þjáist af.
Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur