Fyrirspurn:
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja þessa fyrirspurn. En hún varðar óeðlilega mikinn hárvöxt og jaðrar við að maður geti kallað það að ég sé með skeggvöxt.
Nú er ég búin að lesa mig til um fyrri svör og úrræði í þeim efnum. Hins vegar fann ég ekkert sem átti akkurat við mitt tilfelli.
Ég velti þeim möguleika fyrir mér hvort að hormón eða skortur á hormóni valdi þessu(?)
Ég er með blóðsjúkdóm sem heitir factor 5 leiden sem ég komst að eftir að pabbi fékk blóðtappa og lét tékka þessu.
Ég má þar af leiðandi ekki vera á pillunni, sem ég var á áður og byrjaði fyrir þremur árum síðan á Depo Provera (innsprautun á 3 mánaða fresti).
Þessi sprauta hefur lagst einstaklega illa í mig, hef sýnt ofsa viðbrögð við henni, kasta upp eftir hverja sprautu og einmitt hefur mér fundist hárvöxtur, sem var mikill fyrir aukist.
Nýlega ákvað ég að hætta að fá þessa innsprautun, er ekki á neinni getnaðarvörn sem stendur. Ákvað að hvíla líkamann frá stöðugu hormónaflóði.
Getur verið að hárvöxtur minn minnki í kjölfarið, þe stemmir hormónakerfið sig á e-n hátt af? Eða ætti ég að skoða það að þrátt fyrir blóðsjúkdóminn að fara á Diane mite pilluna sem þið ráðleggið í fyrri svörum?
Vissulega tók ég eftir hinum möguleikunum, var bara að hugsa hvort hægt væri að laga þetta eingöngu með hormónum?
Aldur:
24
Kyn:
Kvenmaður
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,
Hárvöxtur (skeggvöxtur) kvenna er hvimleitt vandamál og skil ég þinn vanda mjög vel.
Orsök aukins hárvaxtar getur verið af ýmsum toga t.d. arfbundið,tengt hormónabreytingum/truflunum eða sjúkdómar.
Það eru til ýmis ráð við þessum kvilla, bæði lyf (pillan eins og þú nefnir) eða aðrar staðbundnar meðferðir eins og t.d. leysermeðferð.
Mér finnst liggjast beinast við og öruggast að þú ráðfærir þig við þinn heimilislækni til að finna út hvað er vænlegast að gera í þinni stöðu, sérstaklega þar sem þú ert með undirliggjandi sjúkdóm og pillan ekki æskileg af þeim sökum og önnur ráð hafa valdið óþægindum.
Með bestu kveðju og gangi þér vel,
Unnur Jónsdóttir,
Hjfr. og ritstjóri Doktor.is