Hætt að reykja og síþreytt?

Spurning:
Komdu sæl/sæll.
Ég hætti að reykja fyrir tveimur árum, var þá búin að reykja frá því ég var unglingur eða í u.þ.b. 25 ár. En eftir að ég hætti hef ég verið síþreytt. Ef ég sest niður á kvöldin sofna ég og ég sef minna á nóttunni (þótt ég sofni ekki á kvöldin). Þannig að ég er ekki ánægð með líðanina eftir að hætta reykingum. Hafið þið heyrt svona kvörtun áður? Er eitthvað til ráða?
Kveðja

Svar:

Sæl og til hamingju með tvö ár reyklaus.

Leitt er að heyra að þrek og úthald hafi ekki aukist við það að hætta að reykja. Nú veit ég ekki hvort eitthvað annað hefur breyst hjá þér síðustu tvö ár svo sem hreyfing, vinna, streita eða aðrir þættir sem gætu haft áhrif.
Í raun ert þú að lýsa einkennum sem fólk finnur fyrir fyrst eftir að það hættir að reykja, en eru venjulega að fullu horfin á fyrsta ári eftir að fólk hættir. En ástæðurnar fyrir breyttir líðan fyrst eftir að tóbakinu sleppir eru meðal annars þessar:

Nikótínið í tóbaki verkar á heilann og svo skrítið sem það hljómar þá hefur það bæði róandi eða örvandi verkun. Nikótínið sjálft er örvandi efni en það stuðlar að losun dópamíns (og fleiri efna) í heilanum sem veitir vellíðunartilfinningu. Þess vegna upplifa margir reykingamenn dofa og jafnvel þunglyndi eftir að þeir hætta að reykja vegna skorts á dópamíni. Í Læknablaðinu 2001/87 segir Þorsteinn Blöndal: ,,fráhvarfseinkenni eins og leiði og þunglyndi, eru algeng fyrstu vikurnar en oft líka mörgum mánuðum eftir upphaf reykbindis". Þar er hann að vísa til skorts á dópamíni og fleiri boðefnum.

Tóbaksnotkunar hefur áhrif á flest ,,kerfi" líkamans svo sem heila, hjarta og æðakerfi, efnaskipti og lungu þannig að vöntun á nikótíni hefur víðtæk áhrif á líkamann. Í nær öllum tilfellum ættu áhrifin að vera horfin eftir tvö ár. Við það að hætta að reykja verður breyting á svo mörgu í líkamanum meðal annars efnaskiptum. Þessi breyttu efnaskipti gera það að verkum að fyrrum reykingarmenn þyngjast oft. Einnig væri ráð að skoða samsetningu matarins, ert þú að fá þá orku sem þú þarft yfir daginn og er sú orka úr hollri fæðu. Reykingar lækka magn HDL- kólesteróls (góða kólesterólið) og hefur þannig áhrif á blóðfituna. Það er sjálfsagt að fólk komið á miðjan aldur láti mæla hjá sér blóðfitu.

Það geta verið margar skýringar á þínum slappleika meðal annars blóðleysi, en eins og við vitum þá flytur blóðið súrefni og næringarefni. Einkenni blóðskorts er þreytta og slappleiki.
Þú talar um að þú sofir ekki eins vel og áður, eitt af fráhvarfseinkennum nikótínskorts er einmitt breytingar á svefnmynstri, fólk sefur léttar en áður og nær ekki þessum djúpa svefni og hvílist þannig ver.
Síþreyta er sjúkdómseinkenni sem kemur fram í þreytu og breyttu svefnmynstri. Það er um að gera að leyta ráða hjá þeim sem unnið hafa með þessi einkenni ef þar finndist lausn á þínum einkennum.

Ég ráðlegg þér eindregið að leita til þíns heimilislæknis og bera vangaveltur þínar upp við hann. Blóðprufur, blóðþrýstings mæling og almennar heilsufarsupplýsingar geta gefið vísbendingar og vonandi hjálpað þér til að ná upp betri hvíld og auknu úthaldi.
Vonandi svarar þetta spurningum þínum og getur orðið að einhverju liði. Þér er einnig velkomið að hringja í Ráðgjöf í reykbindindi grænt númer 800-6030

Gangi þér áfram vel.
Rósa Ösp Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi í reykbindindi