Hætt eftir 35 ár en hef aukaverkanir

Spurning:

Ég hef verið reyklaus í rúman mánuð eftir 35 ára nánast stanslausar reykingar. Mig langar að vita hvort mikil brunatilfinning í húð bæði á handlegg og kálfa sé eðlileg fráhvarfseinkenni. Þessi tilfinning kemur og fer og er mjög óþægileg, t.d get ég ekki hvílt handlegginn eða fótinn á neinu og allt sem kemur við er óþægilegt.

Með fyrirfram þakklæti.

Svar:

Sæl.

Alveg eðlileg tilfinning og getur stafað í u.þ.b. 2 mánuði í viðbót. Stafar af því að nú er að aukast blóðstreymi í háræðum í útlimum sem hafa lokast vegna reykinga, á sama tíma á fót- og handhiti að aukast. Þetta er óþægilegt og mikill pirringur, en á sama tíma veistu að líkaminn er í mikilli vinnu að græða það sem reykingarnar settu úr lagi.

Haltu áfram þú sérð ekki eftir því.
Dagmar Jónsdóttir, reykingaráðgjafi.