Hætta á meðgöngueitrun aftur?

Spurning:
Sæl Dagny Zoega.
Mig langar að spyrjast fyrir um meðgöngueitrun. Ég fékk meðgöngueitrun fyrir átta árum þegar ég gekk með mitt fyrsta og eina barn, ég fékk líka krampa og það þurti að taka barnið með keisara. Ég var mikið veik og mér var haldið sofandi í fimm daga á eftir. Nú langar okkur að fara að eignast annað barn og langar okkur að spyrja hvort það sé mikil hætta á að þetta komi fyrir aftur. Takk fyrir

Svar:

Meðgöngueitrun er algengust með fyrsta barn en hafi kona fengið slæma meðgöngueitrun eru töluverðar líkur á að hún fái hana aftur. Líkurnar eru þó taldar minni ef konan eignast annað barn með sama manni.

Verðir þú barnshafandi verður vitaskuld að fylgjast sérstaklega vel með þér. Það sem þú getur helst gert til að minnka líkur á meðgöngueitrun er að vera í góðu líkamsástandi, réttri líkamsþyngd, borða hollan og próteinríkan mat á meðgöngunni og taka lýsi og vítamín og drekka vel af vatni.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir