Hefur Bextra sömu áhættu og Vioxx?

Spurning:
Til viðkomandi.
Hefur gigtarlyfið BEXTRA sömu áhættu í för með sér og VIOXX á hjartasjúkdóma?
Kveðja

Svar:
Hin svokölluðu coxíb lyf (cox 2 hamlandi lyf) hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu í framhaldi af því að framleiðandi fyrsta lyfsins í þessum flokki, Vioxx, ákvað að taka það af markaði vegna aukinnar hættu á hjartaáföllum í tengslum við langvarandi notkun lyfsins. Ástæðurnar fyrir þessu eru ekki ekki þekktar en margir álíta að um sé að ræða eitthvað sem tengist verkun lyfsins og geti því verið sameiginlegt fyrir öll lyf af þessum flokki. Mjög skiptar skoðanir eru um hættuna á að coxíb lyfin geti stuðlað að hjartaáföllum. Mikil vinna er í gangi víða um heim við að leiða þetta í ljós. Evrópska lyfjastofnunin (EMEA) fylgist náið með þróun þessara mála og miðlar upplýsingum til lyfjastofnana í einstökum löndum í Evrópu, sem koma þeim síðan á framfæri við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Þar til annað hefur komið í ljós er í opinberum textum um öll þessi lyf varað við að gefa þau sjúklingum með sögu um hjartasjúkdóma. Ef þú ert ekki í sérstakri áhættu fyrir hjartasjúkdóma ætti því að vera óhætt fyrir þig að taka Bextra áfram. Ef þú ert hins vegar í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma ættir þú að ræða það við lækninn þinn og taka ákvörðun um áframhaldandi lyfjanotkun í framhaldi af því. Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur