Heimafæðing?

Spurning:
Hæ hæ.
Ég er 28 ára og er 30 vikur gengin með mitt annað barn. Ég er búin að plana heimafæðingu og fann mér æðislega ljósmóður sem ætlar að taka þátt í þessu með okkur hér heima. Ég er alveg að rifna úr spenningi yfir þessu öllu saman og þá sérstaklega yfir því að ég ætla að hafa son minn og mömmu, móðursystur, og fleiri ástvini hjá mér, til að taka þátt í þessu og njóta þessa kraftaverks sem fæðing barns er. Þá er það spurningin. Er ekki eitthvað til sem heitir félag áhugafólks um heimafæðingar? Ég er búin að leita og skoða og gramsa á netinu og ég finn ekkert sem getur hjálpað mér í að komast í samband við aðrar konur sem hafa átt heima. Getið þið bent mér á einhverjar heimasíður varðandi málið? Það væri æði 🙂 Kv,

Svar:
Sæl Birna og takk fyrir fyrirspurnina.
Það var íslensk síða á netinu frá áhugafólki um heimafæðingar en það virðist vera búið að taka hana niður ég kemst allavega ekki inn á hana nú. Það sem mér dettur í hug er að þú getir talað við hana Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður (vinnur á miðstöð mæðraverndar) en ég veit að hún tekur á móti börnum í heimahúsum og athuga hvort hún geti komið þér í samband við konur sem átt hafa börn heima eða ætla að fæða heima.Í bókinni Konur með einn í útvíkkun eru reynslusögur m.a. af heimafæðingum. Þú getur einnig farið á netið og leitað undir leitarorðinu heimafæðing eða homebirth og lesið þar um heimafæðingar. Ég vona að þetta komi að einhverju gagni.

Bestu kveðjur og gangi þér vel með heimafæðinguna þína.
Brynja Helgadóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur