Spurning:
Virkar heitt vatn með salti útí við hægðatregðu?
Svar:
Sæll og takk fyrir fyrispurnina.
Hægðatregða er algengt vandamál og geta orsakirnar verið margvíslegar. Alltaf er mikilvægt að hafa samband við lækni í byrjun, ræða vandamálið og fá mat á hvort frekari rannsókna er þörf til að finna orsök vandans. Nokkrar af algengustu orsökum hægðtregðu er að það er ekki nægilega mikið af trefjum og vökva í fæðunni, ónóg hreyfing en einnig geta streita og ýmis lyf valdið hægðatregðu. Ýmisir sjúkdómar geta einnig valdið hægðatregðu. Mig langar að benda þér á að skoða síðuna okkar á Doktor.is um hollráð við hægðatregðu en þar kemur fram hversu mikilvægt er að í fæðunni sé nægilegt magn af trefjum til að halda hægðunum í lagi og drekka nógan vökva með, því þó nægilegt magn sé af trefjum í fæðunni þá getur virkni þeirra breyst í andhverfu sína ef skortur er á vökva, þ.e. gert hægðatregðuna enn verri. Svarið við fyrirspurn þinni er því að til að halda hægðum mjúkum er nauðsynlegt að drekka 8-10 glös af vökva á dag, gott getur verið að drekka heita drykki í bland en ástæðulaust að bæta saltinu út í. Forðast mjólkurþamb því mjólkurvörur geta aukið á hægðatregðu og nauðsynlegt er að fá nægilegt magn af trefjum úr grófu kornmeti, ávöxtum og grænmeti.
Vona að þú sért sáttur við þetta svar.
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.