Herpes, meðganga og meðferð

Spurning:

Sæl.

Konan mín er gengin fjóra og hálfan mánuð á leið. Hún hefur nú fengið herpes simplex II útbrot á utanvert lærið. Hún hefur ekki áður fengið herpes. Hún hefur ekki fengið hita eða önnur einkenni. Ég fékk hinsvegar herpes fyrir mörgum árum. Getur herpes veiran haft áhrif á þroska barnsins? Getur valtrex lyf sem henni var ávísað komist inn í líkama barnsins og skaðað það? Er líklegt að konan mín fái aftur útbrot á sama stað eða gæti hún fengið útbrot á kynfærin?

Bestu þakkir.

Svar:

Útbrot á læri konunnar er merki um endurvirkjun á gamalli sýkingu af völdum herpes simplex. Þetta er ekki frumsýking. Þar af leiðir er fóstrinu engin hætta búin að svo stöddu. Auk þessa eru mótefni í móðurinni sem fara í barnið um naflastrenginn og verja það gegn hugsanlegri sýkingu. Þannig hefur veiran engin áhrif á þroska barnsins. Valtrex og skyld lyf (t.d. Zovir) eru ekki talin vera fósturskemmandi og engar upplýsingar liggja fyrir um það. Hins vegar er það góð latína að nota ekki lyf á meðgöngu nema brýna ef um þörf er að ræða. Valtrex-gjöf undir þeim kringumstæðum sem bréfritari lýsir er ekki óeðlileg að mínu mati. Það er ekki óhhugsandi að konan geti fengið útbrot á sama stað eða á kynfæri aftur. Um það er erfitt að spá. Hins vegar ber að geta þess að vanfærar konur eru ónæmisbældar að hluta í meðgöngu og því getur verið að herpes hafi látið á ser´kræla en geri það annars ekki. Tíminn leiðir það í ljós. Konan mun ekki smita manninn þar sem að hann upplýsir í bréfinu að hafa fengið herpes og ætti því að vera með mótefni sem verja hann gegn frekari sýkingu.

Kær kveðja
Már Kristjánsson