Hinn aðilinn ekki smitaður af klamydíu?

Spurning:
Ef annar aðilinn í hjónabandinu hefur greinst með klamydíusmit, er mögulegt að hinn sé ekki smitaður þrátt fyrir að kynlíf hafi verið stundað um árabil án þess að nota smokk? Þannig er að mér var tilkynnt fyrir nokkrum árum að ég væri með klamydíusmit, ég véfengdi ekki þessi skilaboð og tók þau lyf sem að mér mér voru gefin. Síðan fór maðurinn minn í skoðun, og ég reyndar líka aftur eftir að við höfðum átt kynmök a.m.k. tvisvar og hvorugt reyndist smitað. Ég tek það fram að hvorugt okkar hefur haft samræði við annan aðila síðustu 9 árin og á þessu tímabili höfum við lifað kynlífi án smokks um árabil og eignast 1 barn (sem hafði ekki augnsmit).

Því spyr ég: er mögulegt að einungis ég hafi verið smituð öll þessi ár og ekki smitað hann, eða (það sem að mig grunar frekar) getur það verið að ég hafi fengið falskar niðurstöður (ég veit fyrir víst að það kemur fyrir að sýni ruglast, niðurstöður skráðar í rangar línur o.s.frv. Við erum jú öll mannleg). En okkur langaði semsagt til að fá ykkar álit, og einnig ef þetta er til í dæminu (að einungis annað hafi verið smitað) getur þá ekki allt eins verið að sonur okkar beri í sér smit sem að við vitum ekki um.

Svar:
Ég fæ mikið af spurningum þar sem fólk er að velta þessu sama fyrir sér. Af hverju er ég með klamydíu en ekki makinn? Eða við erum búin að vera saman í 3 ár og greinumst bæði allt í einu með klamydíu – hélt hann/hún fram hjá mér?

Klamydía er gott dæmi um hættulega sýkingu sem veldur engum einkennum hjá fjölda fólks. Talið er að allt að 85% kvenna og 40% karla séu einkennalaus! Þannig getur sýkingin verið til staðar einkennalaus í lengri tíma.Við ráðleggjum fólki að láta ,,tékka" á sér þegar það er að byrja í sambandi og ætlar að leggja smokknum. Eins er það ljóst að það er hægt að vera í sambandi við einhvern sem er smitaður án þess að smitast sjálfur. Eftir því sem skiptunum fjölgar þá aukast líkurnar en sumir virðast móttækilegri en aðrir fyrir smiti. Auðvitað getum við ekki svarað fólki hvort að maki þess hafi verið ótrúr – það er eitthvað sem fólk þarf að ræða sín á milli. Það sem við vitum hins vegar er að það að greinast allt í einu með kynsjúkdóm er ekki öruggt merki um framhjáhald. Það er líka möguleiki á mistökum við sýnatökur, þ.e. að glös séu rangt merkt en það er sjaldgæft. Prófið sem notað er til að greina klamydíu í þvagi er geysilega næmt og nægir að það sé ein baktería í þvaginu til að það sé jákvætt.

Kveðja,
Forvarnarstarf læknanema