Hjartaskannar / tölvusneiðmyndatæki

Fyrirspurn:

Halló:)

Ég er með spurningu fyrir hjartalækni.

Nú eru komnir til landsins þessir hjartaskannar sem eru víst alveg frábærir, en afhverju er þessi tækni ekki ætluð fyrir fólk sem hefur fengið kransæðastíflu? Það er manneskja í mínu lífi sem fékk kransæðastíflu fyrir 11 árum síðan og maður er auðvitað með stöðugar áhyggjur að eitthvað slíkt komi fyrir aftur en ef þessi manneskja fengi að fara í þennan skanna þá gæti maður séð hjartað og allar æðarnar og vitað með vissu ef einhver stífla er að myndast eða hvort allt sé í himnalagi og þá gætu allir vissulega andað léttar. En það hefur verið sagt við mig að þetta sé ekki ætlað fyrir fólk sem hefur fengið kransæðastíflu en ég skil ekki afhverju og ég vil endilega fá svar við því:)

Með fyrirfram þökk

Svar: 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Það er mikilvægt fyrir fólk sem hefur fengið kransæðastíflu að vera í reglulegu lækniseftirliti. Þá gefst kostur á að fylgjast með ástandi hjartans, áhættuþáttum, og einkennum. Sjúkrasaga, hlustun á hjarta, blóþrýstingur, hjartalínurit og blóðprufa með mælingum á blóðfitu og blóðsykri ásamt fleiri þáttum eru allt hlutir sem eru hjálplegir til þessa að meta ástand viðkomandi einstaklings. Ákvarðanir um frekari rannsóknir eru síðan teknar í hverju tilviki fyrir sig byggðar á þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Dæmi um slíkar rannsóknir eru áreynslupróf, hjartaómskoðun og hjartaþræðing með kransæðamyndatöku.

Með hjartaskanna þeim er þú nefnir í fyrirspurn þinni áttu sennilega við nýja kynslóð af tölvusneiðmyndatækjum. Fullkomnasta tækið af þessarri tegund hér á landi í dag er í Röntgen Domus. Tæknin sem er notuð við þessa myndgreiningu hefur þróast hratt á undnaförnum árum.  Hægt er að fá mjög fullkomnar myndir af kransæðum með þessarri aðferð. Rannsóknin er þó ekki talin jafngóð og kransæðamyndataka með þræðingu til þess að meta þrengingar á æðaholi. Ef kalk er í kransæðum, sem er fremur algengt, sérstaklega hjá eldra fólki, getur það einnig truflað túlkun tölvusneiðmyndarannsóknarinnar.

Ef talin er ástæða til myndgreiningar á kransæðum hjá fólki með sögu um kransæðastíflu er oftast gerð kransæðamyndataka með þræðingartækni. Tölvusneiðmyndataka er í þesum tilvikum ekki talin jafngóð aðferð til þess að meta ástand kransæða í því skyni að taka afstöðu til meðferðar. Algengara er að tölvusneiðmyndataka sé gerð hjá fólki sem ekki hefur þekktan kransæðasjúkdóm til þess að ganga úr skugga um hvort slíkur sjúkdómur er til staðar eða ekki. Mikilvægt er að læknir meti hvort ástæða er til slíkrar rannsókanr því rannsóknin hefur í för með sér talverða geislun sem er ekki alveg hættlaus auk þess sem huga þarf að kostnaði.

Axel F .Sigurðsson, hjartalæknir