Hjartaskanni

Fyrirspurn:

Góðan dag,

Ég er að velta fyrir mér,  afhverju fólk sem hefur fengið kransæðastíflu eða hjartaáfall má ekki fara í þennan nýja hjartaskanna?

Svar:

Sæl,

Með hjartaskanna þeim er þú nefnir í fyrirspurn þinni áttu sennilega við nýja kynslóð af tölvusneiðmyndatækjum. Tæknin sem er notuð við þessa myndgreiningu hefur þróast hratt á undanförnum árum.  Hægt er að fá mjög fullkomnar myndir af kransæðum með þessarri aðferð. Rannsóknin er þó ekki talin jafngóð og kransæðamyndataka með þræðingu til þess að meta þrengingar á æðaholi. Ef kalk er í kransæðum, sem er fremur algengt, sérstaklega hjá eldra fólki, getur það einnig truflað túlkun tölvusneiðmyndarannsóknarinnar.

Ef talin er ástæða til myndgreiningar á kransæðum hjá fólki með sögu um kransæðastíflu er oftast gerð kransæðamyndataka með þræðingartækni. Tölvusneiðmyndataka er í þesum tilvikum ekki talin jafngóð aðferð til þess að meta ástand kransæða í því skyni að taka afstöðu til meðferðar. Algengara er að tölvusneiðmyndataka sé gerð hjá fólki sem ekki hefur þekktan kransæðasjúkdóm til þess að ganga úr skugga um hvort slíkur sjúkdómur er til staðar eða ekki. Mikilvægt er að læknir meti hvort ástæða er til slíkrar rannsókanr því rannsóknin hefur í för með sér talverða geislun sem er ekki alveg hættlaus auk þess sem huga þarf að kostnaði.

Kveðja, Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir