Fyrirspurn:
Góðan daginn,
Ég er með fyrirspurn varðandi hnémeiðsli. Nú er ég of þung og ég er farin að finna fyrir eymslum í hné og mjöðm. Hreyfi mig nú samt alltaf. Ég finn til þegar ég er að byrja að hlaupa svo rjátlast þetta nú af mér. Þegar ég hætti hinsvegar að hlaupa þá get ég ómögulega beygt það mikið. Þegar ég reyni að teygja á standandi á öðrum fæti dragandi hæl í rass er það bara ekki hægt vegna sársauka. Get gert þetta svo nokkrum tímum seinna án mikilla óþæginda en er samt frekar stirð. Í mjöðminni kemur svo oft svona smá verkur/óþægindi og spurning hvort að það geti verið útfrá hnénu en þetta er sömu megin.
Ég er búin að vera slæm í hnjánum frá því að ég var unglingur en hef átt það til að fá vatn í hnén en það hefur samt alltaf gengið tilbaka án þess að til inngripa hafi komið.
Er eitthvað hægt að gera við svona hnévandamál? Mig hryllir við því að fara til læknis og fá fyrirlestur um mataræði og vera svo vísað út án nokkurra annarra ráða.
Aldur
29
Kyn:
Kvenmaður
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,
Þú segist vera of þung og þá er bara eitt ráð við því, létta sig.
Það getur verið mikið álag á hnén ef líkamsþyngd er of mikil.
Þú segist hreyfa þig og er það vel, en þá er spurning hvort sú hreyfing sé regluleg og nægilega mikil?
Ef þú ert slæm í hnjám þá er kannski ganga eða almenn leikfimi hentugri hreyfing fyrir þig en hlaup. Það sem kiptir líka miklu máli er að stunda ræktina reglulega og að sjálfsögðu að huga að réttu mataræði.
Ef þessi ráð duga ekki, þá ættir þú að leita þér ráða hjá bæklunarlækni og láta skoða þig og meta.
Með bestu kveðju og gangi þér vel,
Unnur Jónsdóttir,
Hjfr. og ritstjóri Doktor.is