Spurning:
Sæll.
Hvers vegna eru hnetur óæskilegar fyrir ung börn? Á hvaða aldri er talið æskilegt að börn byrji að borða poppkorn?
Með kveðju,
Svar:
Komdu sæl.
Talið er að allt að 75% fæðuofnæmis- og fæðuóþolstilfella megi rekja til þriggja fæðutegunda – eggja, hneta og mjólkur. Ástæða fæðuofnæmis er sú að þessi matvæli hafa að geyma prótein sem eru ofnæmisvakar. Algengustu ofnæmisvaldar hjá börnum eru mjólk og egg. Sojaprótein geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum og börn með ofnæmi fyrir mjólk geta einnig haft ofnæmi fyrir sojamjólk.
Í flestum tilvikum komast börn yfir mjólkur- og eggjaofnæmi á 1. og 3. aldursári. Aftur á móti hverfur ofnæmi fyrir fiski, skelfiski og hnetum sjaldnast.
Sýnt hefur verið fram á að eftir því sem barn byrjar fyrr að neyta fæðu sem telst til „algengra” ofnæmisvalda (svo sem hnetur) aukast líkur á að ofnæmi nái að myndast. Þess vegna er talið óæskilegt að ung börn neyti hneta einfaldlega vegna þess að það eykur líkur á að hnetuofnæmi nái að festa rótum.
Hvað varðar poppkornsneyslu er ekkert sem mælir gegn því að barnið bryðji popp þegar á öðru aldursári. Helsta ástæða þess að það getur verið varhugavert fyrir lítil börn að neyta poppkorns er sú að sumar fæðutegundir eru varasamari en aðrar hvað varðar að þær standi í fólki, ekki síst börnum, og er poppið gjarnan nefnt í því sambandinu. Einnig má geta þess að á fyrsta aldursári ber að forðast að gefa barninu mat sem hefur verið saltaður aukalega.
Með ósk um gott gengi.
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur