Hnútur í legi

Spurning:

Kæri Arnar Hauksson.

Okkur langar að spyrja þig um hnút í legi. Um er að ræða konu um fertugt sem ekki hefur eignast börn.
Ef það greinist stór hnútur (ofvöxtur) í leginu er þá mælt með að fjarlægja legið?
Væri undir einhverjum kringumstæðum í lagi að láta þennan hnút eiga sig?
Ef hann er látinn eiga sig getur hann þá haft áhrif á önnur líffæri í kviðarholinu?

Að lokum, ef farið er í legnám hvaða áhætta fylgir slíkri aðgerð og hversu langan tíma tekur að jafna sig. Hefur það áhrif á blöðru eða þarmastarfsemi?

Með fyrirfram þökk fyrir upplýsingarnar.

Svar:

Komdu sæl.

Hnútar í legi, (myoma, fibromyoma) eru mjög algengir og geta komið upp á ungum aldri en algengara að þeir komi upp þegar konur eldast. Yfirleitt eru þetta góðkynja fyrirbæri þó örlítill hluti þeirra geti þróast yfir í illkynja hnúta. Þess vegna er nauðsynlegt að fylgst sé með þeim og hvort þeir vaxi jafnt og þétt eða komi fram á stuttum tíma og hætti síðan að vaxa en það er einmitt algengast. Ef fertug kona greinist með hnút í legi og á ekki börn er það grundvallaratriði að ræða fyrst um það við hana hvort hún vilji eignast börn eða ekki. Hnúturinn kann að vera hluti af þeirri orsök að hún hefur ekki orðið þunguð hafi hún á annað borð einhvern tíma reynt það. Séu hnútar stórir geta þeir þrýst á önnur líffæri og truflað starfsemi þeirra, en þá eru þeir líka nokkuð stórir. Yfirleitt er óhætt að láta þessa hnúta algjörlega í friði, láti þeir konuna í friði. Í slíkum tilfellum þarf ekki að fjarlægja þá, en nauðsynlegt eins og að ofan gat að fylgjast með þeim af lækni konunnar. Einungis þarf að fjarlægja hnútana ef þeir valda óþægindum eða ef þeir hindra þungun. Ekki er ástæða hjá konu á þessum aldri að taka bara hnútana ef hún á annaðborð vill losna við þá og ekki verða þunguð. Einfaldara er þá að fara í legnám þar sem ella gætu aðrir og nýir hnútar bæst við sé bara hnúturinn fjarlægður. Þó þarf ávallt góða fræðslu og viðræður um slík mál við sjúkling áður en til aðgerðar kemur og þar má ræða aðra meðferðarmöguleika.

Kveðja,
Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir